Óvíst hvort laumufarþegarnir verði sendir úr landi

Enn er óljóst hvenær eða hvort laumufarþegarnir fjór­ir sem voru um borð í súráls­skip­inu sem kom til hafn­ar í Straums­vík 8. júlí verði sendir úr landi, að sögn Jó­hanns Karls Þóris­son­ar aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjóns.

Laumuf­arþeg­arn­ir koma upp­runa­lega frá Gín­eu og tala bara frönsku en lög­regl­an hef­ur átt sam­skipti við þá með aðstoð túlks. Fóru þeir um borð í skipið í Senegal og voru upp­götvaðir af skip­verj­um á fjórða degi.

Skipið sigldi fyrst til Bras­il­íu en mönn­un­um var ekki hleypt úr skip­inu og inn til lands­ins þar. Þeir dvöldu því í einni ká­etu skips­ins uns þeir komu að landi á Íslandi. 

Dvelja á hóteli í bænum

Að sögn Jóhanns er verið að vinna í því að staðfesta hvaðan laumufarþegarnir eru og svo verður unnið að því að fá ferðaskilríki fyrir þá. Menn­irn­ir eru ekki með skil­ríki og upp­fylla því ekki skil­yrði til að dvelja á Íslandi. 

„Það tekur einhvern tíma þannig þeir eru á hóteli í bænum á meðan,“ segir hann.

Farþegarnir eru nú í umsjá umboðsmanns sem sér þeim fyrir mat og húsnæði og munu þeir því koma til með að dvelja hér á landi á meðan unnið er í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert