Sósíalistar slá Miðflokki og Flokki fólksins við

Gunnar Smári Egilsson segir að fyrsta skrefið sé að ná …
Gunnar Smári Egilsson segir að fyrsta skrefið sé að ná inn á þing. Þó sé ljóst að Sósíalistaflokkurinn fari ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokki, Miðflokki eða Viðreisn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, segist ánægður með niðurstöður könnunar MMR þar sem flokkurinn mælist með 5,6% fylgi. Hann er sem fyrr stærri en Miðflokkur og Flokkur fólksins.

„Við erum búin að vera á þessu róli hjá MMR síðan síðastliðinn vetur. Við erum bara ánægð með það, það gerist ekki oft að nýstofnaður stjórnmálaflokkur mælist svona hátt rétt fyrir kosningar. Við teljum að þetta sé vísbending um að við höfum mikil sóknarfæri í kosningabaráttunni,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokki, Miðflokki eða Viðreisn

Útilokið þið samstarf við einhverja flokka?

„Það hefur ekki verið ákveðið í stofnunum flokksins, við erum bara að fara í kosningabaráttu, upphafsstefið hjá okkur er að komast inn á þing áður en við förum að lýsa því yfir með hverjum við ætlum að mynda ríkisstjórn og svona. Að taka þátt í leik stóru krakkana sem eru alltaf að mynda ríkisstjórn en eru kannski ekki að leggja fram nein mál,“ segir hann og bætir við að Sósíalistaflokkurinn hafi lagt ríkari áherslu á málefnastarf.

En hins vegar held ég að það sé á öllu ljóst að við erum ekki að halda í samstarf með flokkunum sem kallast auðvaldsflokkarnir, sem eru Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Viðreisn, flokkar sem eru ættaðir úr hinu svartasta hægri,“ segir hann og heldur áfram: 

„Við erum náttúrulega sósíalískur flokkur og teljum okkur eiga skyldleika með sósíalistum í VG og verkalýðssinnum í Samfylkingu, félagshyggju-Pírötum, samvinnufólki í Framsókn og réttlætissinnum í Flokki fólksins,“ segir hann. Þá vilji flokkurinn líta til grasrótar og kjósenda flokkanna fremur en forystu þeirra. 

„Forystur flokkanna eru oft uppteknar að einhverjum bakherbergisleik, hver á að mynda ríkisstjórn með hverjum. Kosningarnar snúast mest um að taka ákvarðanir um í hvaða fólk fólk vill að þjóðfélagið þróist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert