Þrír af hverjum fjórum landsmönnum fara á bíl til vinnu

Umferð um Kringlumýrarbraut.
Umferð um Kringlumýrarbraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls fara ríflega þrír af hverjum fjórum á bíl til vinnu eða í skóla, samkvæmt niðurstöðum úr könnun Gallup á ferðamáta landsmanna til vinnu eða skóla, hve langan tíma ferðin tekur og samanburður við sambærilegar kannanir frá 2008 og 2007.

Flestir ferðast til vinnu eða skóla einir í bíl, eða rösklega sex af hverjum tíu, og næstflestir með öðrum í bíl, eða nær 16%.

Einn af hverjum tíu fer fótgangandi, 7% á reiðhjóli og 5% með strætisvagni. Rúmlega 1% fer á annan hátt.

Fram kemur í tilkynningu frá Gallup að þetta eru svipaðar niðurstöður og fyrir þrettán árum síðan.

Flestir ferðast til vinnu eða skóla einir í bíl, eða …
Flestir ferðast til vinnu eða skóla einir í bíl, eða rösklega sex af hverjum tíu. Ljósmynd/skjáskot

Fólk yfir fimmtugu líklegra til að fara fótgangandi

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru Karlar duglegri en konur að hjóla til vinnu eða skóla. Þá fer fólk á miðjum aldri enn frekar á bíl en þeir sem yngri eða eldri eru.

Fólk yfir fimmtugu er líklegra til að fara fótgangandi en þeir sem yngri eru og fólk undir fertugu er líklegra en þeir sem eldri eru til að fara á reiðhjóli eða á annan hátt, eins og t.d. með strætisvagni, á vespu, mótorhjóli, rafhlaupahjóli o.s.frv.

Fólk á miðjum aldri fer enn frekar á bíl en …
Fólk á miðjum aldri fer enn frekar á bíl en þeir sem yngri eða eldri eru.

Meðalferðatími hefur lengst

Meðaltími sem það tekur landsmenn að ferðast til vinnu/skóla er 14 mínútur en hann mældist 13 mínútur árið 2008 og 12 mínútur 2007. Ferðatíminn er stystur fyrir íbúa Norðausturkjördæmis, eða 9 mínútur að jafnaði, en lengstur fyrir íbúa Grafarvogs, Grafarholts, Mosfellsbæjar og Kjalarness, eða 17 mínútur.

Meðalferðatími íbúa miðbæjar, Vesturbæjar og Seltjarness hefur lengst úr tíu í fimmtán mínútur frá árinu 2008 og ferðatími íbúa Austurbæjar að Elliðaám hefur lengst úr tíu í þrettán mínútur, sem er þó enn stysti meðalferðatími á höfuðborgarsvæðinu.

Ferðatími íbúa höfuðborgarsvæðisins er að jafnaði lengri en landsbyggðarinnar, eða 15 mínútur að meðaltali miðað við 11 mínútur hjá íbúum á landsbyggðinni. Meðalferðatíminn á höfuðborgarsvæðinu hefur lengst frá árinu 2008 en þá var hann tæpar 13 mínútur.

Meðaltími sem það tekur landsmenn að ferðast til vinnu/skóla er …
Meðaltími sem það tekur landsmenn að ferðast til vinnu/skóla er 14 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert