Gosið tók sér „kríu“ í dag

Sjá mátti rauðbjartann strókinn rísa í gegnum skýin úr flugvél …
Sjá mátti rauðbjartann strókinn rísa í gegnum skýin úr flugvél Icelandair um klukkan 2 í nótt. mbl.is/Gunnhildur Sif

Útlit er fyrir að gosóróinn sé mögulega aftur að aukast eftir að hafa tekið sér smá „kríu“ frá því klukkan níu í morgun. Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Líkt og fram kom í morgun lognaðist gosóróinn út af klukkan fimm síðdegis í gær og tók svo við sér um miðnætti. Um klukkan hálfþrjú í nótt fór gospúlsinn, eða hviðuvirknin, aftur að mælast.

Gosóróinn róaðist svo aftur niður í morgun, og lítil virkni í gosinu í dag. Salóme segir að samkvæmt sínum gögnum sé útlit fyrir að það sé aðeins farið að taka við sér aftur.

Salóme segist einnig hafa fengið fregnir af því frá landverði á svæðinu að í fyrsta sinn í nokkra daga mætti sjá uppgufun í Nátthaga. Það bendi til þess að hraun sé að renna neðanjarðar úr gígnum og niður í Nátthaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert