Sækja slasaða konu í Jökultungur

Laugavegurinn er vinsæl gönguleið á sumrin.
Laugavegurinn er vinsæl gönguleið á sumrin. Rax / Ragnar Axelsson

Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli, auk hálendisvaktarinnar, voru kallaðar til um klukkan tvö í dag vegna konu sem talin er fótbrotin efst í Jökultungunum, á milli Álftarvatns og Hrafntinnuskers á gönguleiðinni Laugavegi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg. 

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Landsbjörg, segir í samtali við mbl.is að nokkurt verk sé að koma konunni í bíl þar sem Jökultungan er snarbrött brekka: „Þetta eru skriður, allt í lagi að ganga rólega, gott að vera með göngustafi en stundum skrikar fólki fótur, eins og gengur,“ segir Jónas. 

Bera þarf sjúkrabörur niður skriðurnar. 

„Reikna má með að tvær eða þrjár klukkustundir í viðbót taki að koma göngukonunni að björgunarsveitarbíl sem mun flytja hana til byggða að sjúkrabíl,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert