„Vonandi verður þetta almenn regla“

Diljá Sigurðardóttir í Sky Lagoon.
Diljá Sigurðardóttir í Sky Lagoon. Aðsend mynd

Diljá Sigurðardóttir, sem var rekin upp úr baðlóninu Sky Lagoon vegna klæðaburðar, er ánægð með breytingarnar sem Sky Lagoon hefur gert á reglum sínum um klæðaburð í lóninu. „Ég vona bara að aðrir baðstaðir taki þetta sér til fyrirmyndar,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Framkvæmdastjóri Sky Lagoon gaf út tilkynningu í dag þar sem greint er frá breytingum á skilmálum um klæðaburð í lóninu. Frá og með deginum í dag verður ekki gerður greinarmunum á kynjum um hvað séu fullnægjandi sundföt hjá Sky Lagoon.

Sökuð um athyglissýki

Breytingarnar má rekja til atviks sem Diljá greindi frá í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún lýsir upplifun sinni af því að hafa verið vísað upp úr Sky Lagoon fyrir það eitt að vera berbrjósta í lóninu.

Færslan vakti mikla athygli og fóru hitamiklar umræður um málið á flug á samfélagsmiðlum í kjölfarið. 

Þetta er alveg búið að taka pínu á, en mér líður bara þokkalega. Ég er búin að fá góðan stuðning en svo er alltaf eitthvert fólk á kommentakerfunum sem er með leiðinlegar skoðanir, en ég tek það ekki inn á mig.

Sumir hafa verið að segja að ég sé að þessu því ég sé athyglissjúk, en málið er að jafnvel þó ég væri athyglissjúk, sem að ég er ekki, af hverju ætti fólk að geta notað það sem rök fyrir því að ég eigi ekki að njóta sömu réttinda og karlmenn? Þannig að ég hlusta bara ekki á svona. Mér finnst þetta bara vera bull,“ segir Diljá.

Segir sömu reglur eiga að gilda um alla

Innt eftir viðbrögðum við breytingunum á reglum Sky Lagoon um klæðaburð í lóninu segir hún þær vera „frábærar“. Þá vonar hún að þetta atvik verði öðrum baðstöðum til eftirbreytni.

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig aðrir baðstaðir tækla þetta. Vonandi verður þetta almenn regla þannig að allir geti farið á alla baðstaði án þess að hafa áhyggjur af því að vera vísað upp úr vegna klæðaburðar.

Sömu reglur eiga að gilda um alla, óháð kyni. Mér finnst að það þurfi að vera á hreinu í öllum sundlaugum og baðstöðum landsins að ef þau vilji að konur hylji geirvörturnar þá ættu allir aðrir að þurfa að gera það líka,“ segir hún.

Aðspurð segist Diljá alveg geta hugsað sér að heimsækja Sky Lagoon eftir að reglunum þar var breytt.

„Já, ég held það bara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert