Allir stærstu viðburðir blásnir af

Sparitónleikar á Einni með öllu í fyrra.
Sparitónleikar á Einni með öllu í fyrra. Ljósmynd/Hilmar Friðjónsson

Í ljósi frétta um hertar aðgerðir sem taka gildi á miðnætti á morgun hefur ýmsum mannmörgum viðburðum verið aflýst.

Fjölskylduhátíðin „Einni með öllu“ á Akureyri var aflýst fyrr í kvöld að því er segir í tilkynningu. Fáeinir smærri viðburðir verða þó leyfðir með fjöldatakmörkunum og stífum sóttvarnareglum. Þá mun fjallahlaupið Súlur Vertical fara fram endi brjóti það ekki í bága við þær fjöldatakmarkanir eða nándarreglur sem ríkisstjórnin hefur sett.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir eins og staðan er nú, ekki hægt að stefna þúsundum manna saman. „Við viljum allt til þess vinna að halda útbreiðslu Covid-19 í skefjum og þjóðin verður að sýna samstöðu í þessari baráttu. Við höfum gert það áður og við getum það aftur,“ segir Ásthildur.

Væntingar barna og ungmenna að engu

Þá hefur Unglingalandsmóti UMFÍ verið frestað. „Geysileg vonbrigði að gera væntingar barna og ungmenna að engu annað árið í röð. Við höfum beðið eftir upplýsingum eins og öll þjóðin. Miðað við þær forsendur sem okkur voru að berast í kvöld er ljóst, að ekki verður hægt að halda Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina,“ segir Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ, í tilkynningu. 

Þá segir í tilkynningu að UMFÍ muni endurgreiða öllum þátttakendum sem þegar hafa skráð sig en það stefndi í að mótið yrði eitt það fjölmennasta frá upphafi. 

Druslugangan 2019.
Druslugangan 2019. mbl.is/Hari

Sýna samfélagslega ábyrgð 

Druslugöngunni hefur einnig verið frestað um óákveðinn tíma. Gangan átti að fara fram á morgun.

„Þrátt fyrir að takmarkanirnar taki ekki gildi fyrr en annað kvöld finnst okkur mikilvægt að fylgja fyrirmælum stjórnvalda og sýna þá samfélagslegu ábyrgð að gera það sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu smita. Viðburður eins og Druslugangan sjálf er gífurlega mikilvægur fyrir þolendur ofbeldis og munum við halda áfram að vekja athygli á málstaðnum á meðan þörf er á,“ segir í færslu á Facebook-síðu Druslugöngunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert