Niður ár á uppblásnum bátum

Hér sigla þeir félagar niður Norðlingafljót með fallegt útsýni í …
Hér sigla þeir félagar niður Norðlingafljót með fallegt útsýni í baksýn. Að róa í nálægð jökuls segir Plante ótrúlega lífsreynslu.

Fjórir karlar á sjötugsaldri ferðast nú um landið á bæði fæti og báti. Þeir sigla niður ár á uppblásnum bátum, svokölluðum „packraft“-bátum, sem þeir síðan brjóta saman og skella ofan í bakpoka sinn og fara leiðar sinnar gangandi þegar þeim sýnist.

Mennirnir eru fjórir; David Plante og Mark Chmeilewicz frá New York-ríki í Bandaríkjunum, Tom Randgaardt frá Minnesota í sama landi og Didier Maclaine Pont frá Hollandi.
„Ég hef verið með kajakferðir á norðurslóðum í um 30 ár,“ segir Plante sem nýlega fór á eftirlaun í starfi sínu sem dýralæknir. Hann er reyndur kajak-siglari en hefur nú kolfallið fyrir ferðum á packraft-bátum.

„Ég byrjaði að sigla á þessum bátum því maður getur ferðast um miklu stærra landsvæði en er hægt á kajak. Maður kemst á staði sem ekki væri annars hægt að komast að,“ segir Plante en fyrsta ferð hans á packraft-bát var um 320 kílómetra ferð í Alaska. Síðasta ferðin á undan þessari var í Belís þar sem hann og Didier ásamt þremur öðrum sigldu í frumskógum og hellum landsins.

Algjört frelsi

Að sögn Plantes eru bátarnir bæði léttir, minna en fjögur kíló og þola álag vel. „Það er hægt að sigla í þeim í 5-8 sentimetra háu vatni og eins stórum og kröftugum flúðum og finna má í Miklagljúfri.“ Þegar komið er að vatni eða á eru bátarnir einfaldlega blásnir upp og samanbrotin ár tekin upp úr töskunni. Lítið mál er svo að taka saman bátinn og ganga af stað með hann í bakpokanum.

„Þetta gerir manni kleift að kanna svæði sem ekki væri annars hægt. Í Alaska, til dæmis, vörðum við tveimur dögum í að fara niður eina ána, pökkuðum svo öllu saman og gengum í tvo daga. Svo komum við að sjó og þá sigldum við 12 kílómetra þar yfir,“ segir Plante. „Þetta er hrikalega skemmtilegt. Ég elska þetta. Maður finnur fyrir algjöru frelsi.“

Packraft-bátarnir þola vel að fara niður erfiðar flúðir.
Packraft-bátarnir þola vel að fara niður erfiðar flúðir.

Plante segir árnar á Íslandi henta vel til að ferðast á þennan hátt. „Fólk hefur farið um ár á Íslandi á svona bátum áður en enginn þá sem við fórum um daginn,“ segir hann en þá sigldu þeir félagar niður Norðlingafljót. „Við fórum niður bæði flúðir og litla fossa á leiðinni.“

Þegar blaðamaður ræddi við Plante höfðu þeir félagar verið hér í 10 daga og áttu um þrjár vikur eftir af ferð sinni. Plant segir að ferðin sé ekki skipulögð í þaula heldur snúist hún um að kanna landsvæðið og finna bestu árnar til að sigla niður.

Koma aftur til Íslands

Plante segir að ferðirnar séu jafn ólíkar og þær eru margar. „Frumskógurinn var ótrúlegur. Þar voru leðurblökur flúgandi yfir manni, fiskar sem maður hafði aldrei séð áður í ánum, apakettir í trjánum og þar fram eftir götunum. Umhverfið í Alaska var einnig magnað með skógarbirni allt um kring.“

Umhverfið á Íslandi sé einnig einstakt. „Maður lítur til hliðar og sér kindur þótt landslagið líkist því sem maður sér á norðurslóðum,“ segir hann.

Nánar er rætt við David Plante í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Plante með bát sinn við Norðlingafljót.
Plante með bát sinn við Norðlingafljót.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert