Þessar takmarkanir taka gildi á miðnætti

Sóttvarnagrímur eru meðal þess sem verður aftur hluti af daglegu …
Sóttvarnagrímur eru meðal þess sem verður aftur hluti af daglegu lífi Íslendinga. AFP

Á miðnætti munu aftur taka gildi samkomutakmarkanir en 26. júní var öllum takmörkunum innanlands aflétt. Takmarkanirnar sem taka gildi á miðnætti og gilda til og með 13. ágúst eru eftirfarandi:

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. 
  • Nándarregla verður almennt 1 metri. 
  • Grímuskylda verður tekin upp innanhúss og þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu. 
  • Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verði 200.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum sem og sund- og baðstöðum verður heimilt að hafa opið fyrir 75% af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Sameiginlegan búnað skal sótthreinsa milli notenda.
  • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
  • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna heimilar með og án snertinga með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými sem skulu skráðir í sæti. Veitingasala óheimil á keppnisstöðum.
  • Æfingar og sýningar sviðslista og sambærilegrar starfsemi heimilar með allt að 100 manns á sviði. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými, svo sem í bíóhúsum. Heimilt að hafa hlé en enga veitingasölu í hléum. Skrá skal gesti í sæti.
  • Hámarksfjöldi gesta við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður 200.
  • Afgreiðslutími veitingastaða, skemmtistaða o.þ.h. verður til kl. 23.00 (tæma þarf staði fyrir miðnætti) og hámarksfjöldi gesta 100 manns í rými. Vínveitingar bornar fram til sitjandi gesta. Skrá skal gesti.

Þá segir í minnisblaði sóttvarnalæknis að stefnt sé að því í ágúst að bjóða þeim sem bólusettir hafa verið með bóluefni Janssen seinni bólusetningu. „Þótt markaðsleyfi sé fyrir einum skammti þessa bóluefnis er líklegt að skammt tvö þurfi til að veita betri vörn. Einnig verður einstaklingum með undirliggjandi ónæmisvandamál boðinn þriðji skammtur bóluefnis en líklegt er að tveir skammtar veiti ekki nægilega góða vörn gegn Covid-19 hjá þessum hópi.“

Enn sem áður eru þeir hvattir til að fara í …
Enn sem áður eru þeir hvattir til að fara í sýnatöku sem finna fyrir einkennum kórónuveirunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samstaða innan ríkisstjórnarinnar

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sögðu í viðtölum við mbl.is þegar takmarkanirnar voru kynntar að um þær ríkti samstaða og að uppsveiflan í faraldrinum hefði ekki áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra viðurkenndi þó í samtali við mbl.is að ein­hver hiti hefði verið á rík­is­stjórn­ar­fund­in­um sem stóð yfir í þrjár klukkustundir í gær. 

„Þarna fóru fram mjög hrein­skiln­ar og góðar sam­ræður. Þetta eru ekk­ert auðveld­ar ákv­arðanir sem þarf að taka, það er mik­il­vægt að gefa sér tíma í að taka þær,“ sagði Katrín. 

Neikvætt próf

Á landamærunum tekur gildi ný reglugerð á miðnætti á þriðjudaginn. Frá og með þeim tíma þurfa allir bólusettir einstaklingar eða þeir sem eru með staðfesta fyrri sýkingu sem koma til Íslands að framvísa ekki eldra en 72 klst. gömlu neikvæðu Covid-prófi, PCR eða antigen (hraðprófi), þegar komið er um borð í flugvél erlendis.

Áfram þurfa óbólusettir einstaklingar að framvísa PCR-vottorðum sem eru ekki eldri en 72 klst. gömul, auk að fara í tvær PCR-skimanir með fimm daga sóttkví á milli skimana. Börn fædd 2005 eða síðar verða áfram undanþegin öllum aðgerðum á landamærum.

16 mánuðir af takmörkunum

Frá 28. febrúar árið 2020 hafa greinst 7.148 smit á Íslandi og 30 hafa látist af völdum veirunnar. 12. mars árið 2020 sendi sóttvarnalæknir fyrsta minnisblað sitt til heilbrigðisráðherra vegna faraldursins. Þá höfðu 122 greinst með Covid-19.

Fjórum dögum síðar, 16. mars, tóku fyrst í gildi samkomutakmarkanir hér á landi. Þá var 100 manna samkomubann, framhalds- og háskólar voru lokaðir og nálægðartakmörk miðuðust við tvo metra. Eftir þetta fyrsta minnisblað hafa samkomutakmarkanir flakkað á milli þess að vera frá 10 í allt að 500 á rúmlega 16 mánuðum.

Þórólfur hefur sagt að ekki sé útilokað að takmarkanir muni vara að einhverju leyti næstu árin og að faraldrinum ljúki ekki fyrr en honum lýkur alls staðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert