Tæplega 200 þúsund gengið að eldgosinu

Eldgosið á Reykjanesi
Eldgosið á Reykjanesi mbl.is/Árni Sæberg

Tæplega 200 þúsund manns hafa gengið að eldgosinu í Geldingadölum síðan það hófst í mars, samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar. „Það er stöðugur straumur af fólki og stór meirihluti eru erlendir ferðamenn,“ segir Gunnar Schram, yf­ir­lög­regluþjónn lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um, í samtali við mbl.is. 1.020 gengu að gosinu í gær og alls hafa 10.020 manns gengið að því síðustu vikuna.

„Ég útiloka það alls ekki að gosið sé það sem dregur fólk hingað til lands en það er nú svo sem ekki eina aðdráttaraflið. Ég hugsa þó að það hafi örugglega mikið að segja hjá mörgum.“ Gunnar segir að veðrið spili mikið inn í varðandi fjölda þess fólks sem fari að gosstöðvunum. „Það var nú ekki spennandi um helgina en það er töluverður fjöldi í dag.“

Gunnar segir að eftirlit með gosstöðvunum hafi verið ögn flóknara undanfarnar tvær eða þrjár vikur vegna sumarfría en landverðir manni virku dagana og ýmsir björgunarsveitarmenn séu á vakt um helgar þegar búist er við aukinni umferð. Ef útköll berast eru það svo björgunarsveitir á Suðurnesjunum og lögreglan sem bregðast við.

„Um helgina voru tvö útköll frá fólki sem hafði villst en fannst eftir skamma leit. Þau voru blaut og hrakin. Ef veðrið verður áfram svona þokukennt, mikil rigning og vindur, þá eigum við kannski eftir að sjá meira af svoleiðis verkefnum.“

mbl.is bárust myndir sem teknar voru um helgina þar sem ferðamenn sjást ganga á hrauninu og segir Gunnar lögregluna ansi oft hafa þurft að ítreka að það sé stórhættulegt. „Það er talsvert langt síðan við fórum að vara við því og hefur komið skýrt fram í fjölmiðlum hingað til bæði frá vísindasamfélaginu og okkur [lögreglunni] hversu hættulegt það er. Það er hins vegar erfitt að fá alla til þess að fara eftir tilmælum,“ segir Gunnar og nefnir að í heild hafi störf viðbragðsaðila gengið vel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert