Áfram þarf að tryggja kaupmáttinn

Samtök atvinnurekenda og fulltrúar fjölda verkalýðsfélaga skrifuðu undir Lífskjarasamninginn í …
Samtök atvinnurekenda og fulltrúar fjölda verkalýðsfélaga skrifuðu undir Lífskjarasamninginn í apríl. mbl.is/Hari

„Það er júlí núna og kjarasamningarnir koma til endurskoðunar í september. Við eigum eftir að taka þessa umræðu í okkar hópi og ætlum okkur ágúst í það,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ).

Hún var spurð hvort hún tæki undir sjónarmið Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í Morgunblaðinu í gær. Þar sagði hann m.a. að nú væri ekki mikil stemning, hvorki í samfélaginu né innan verkalýðshreyfingarinnar, fyrir átökum eða aðgerðum sem ykju á óvissuna í þjóðfélaginu samhliða fjölgun smita.

Drífa bendir á að stemning geti breyst mikið á milli mánaða. Hún var ekki tilbúin til að gefa neitt út um þetta núna. En hvað segir hún um væntanlegar launakröfur?

„Barátta verkalýðshreyfingarinnar snýst um aukin lífsgæði og aukinn kaupmátt. Það er hægt að tryggja kaupmáttinn með launahækkunum, með því að stemma stigu við vaxtahækkunum eða að halda vöxtum lágum. Húsnæðiskostnaðurinn kemur einnig mjög sterkt inn,“ segir Drífa.

Spurður um atvinnuleysi kvaðst Ragnar reikna með að atvinnustigið og breytingar á störfum í kjölfar „fjórðu iðnbyltingarinnar“ yrðu fyrirferðarmikil í næstu samningum. Hann minntist á styttingu vinnuvikunnar í því sambandi. Drífa telur að stytting vinnuvikunnar hafi heilt yfir gengið ágætlega á almenna vinnumarkaðinum.

„Það er ljóst að þetta er fyrsta skrefið í vegferð sem við erum að hefja,“ segir Drífa. „Það er tvennt í sambandi við „fjórðu iðnbyltinguna“ sem þarf að huga að. Það er að framleiðniaukning skili sér í auknum lífsgæðum eða styttri vinnutíma. Á þinginu okkar í haust ætlum við að ræða sérstaklega um réttlát umskipti. Hvernig við tryggjum að góð störf verði til þegar öðrum fækkar. Eins að fólk eigi kost á endurmenntun til nýrra starfa.“

Hún kveðst ekki óttast að langtímaatvinnuleysi festist almennt í sessi, en sú hætta sé fyrir hendi hjá ákveðnum hópum. „Ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af ungu fólki sem hugsanlega mun eiga erfitt með að komast aftur inn á vinnumarkaðinn úr atvinnuleysi,“ segir Drífa. Hún nefnir að ákveðinn hópur ungs fólks hafi setið eftir þegar atvinnuleysistímabilinu eftir hrunið lauk. Þeim hópi þurfi að mæta með virknitryggingu – ýmist framfærslu, námi eða stuðningi við ný störf.

Jafna þarf aðstöðumuninn

Spurður um sjónarmið Ragnars Þórs, formanns VR, segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags, ekki hægt að horfa fram hjá því að við höfum gengið í gegnum heimsfaraldur.

„Þjóðfélagið hefur gengið í gegnum mikla lægð og einhverjar greinar atvinnulífsins skrölt einhvern veginn áfram en aðrar hafa gengið ágætlega. Ég held að nú snúist málið mikið um að halda sjó,“ segir Aðalsteinn. Varðandi væntanlega kröfugerð segir hann að kaupmáttinn þurfi að verja og bæta. Hann telur einnig tímabært að taka inn í kjaraviðræður þá miklu mismunun sem íbúar landsbyggðarinnar búa við varðandi ýmsa opinbera þjónustu samanborið við íbúa þéttbýlustu svæðanna.

„Stjórnvöld hafa staðið fyrir mjög mikilli samþjöppun þjónustu eins og sérhæfðrar læknisþjónustu og sérhæfðs náms eins og t.d. á háskólastigi. Þessi þjónusta er nú einkum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Hún er orðin mjög dýr fyrir okkur sem búum annars staðar. Ég hef komið því á framfæri við ASÍ að það þurfi að ræða þann mikla kostnað sem við þurfum að leggja út til að njóta þessarar þjónustu,“ segir Aðalsteinn og telur að það geti komið mörgum betur að það verði tekið á þessari fjárhagslegu mismunun fremur en tiltekin launahækkun.

Aðalsteinn kveðst ekki óttast að umtalsvert atvinnuleysi sé að festast hér í sessi. „Við höfum alla burði til að efla ferðaþjónustu og grænan iðnað. Það eru líka mörg tækifæri í kringum sjávarútveg og landbúnað. Ég sé ekki fyrir mér að atvinnuleysi á Íslandi muni aukast.“

Hann minnir á að hingað hafi verið fluttar þúsundir erlendra starfsmanna til að mæta þörf fyrir vinnuafl. Enn er verið að flytja inn starfsfólk. Því þurfi ekki að vera atvinnuleysi hér þegar við verðum komin í gegnum heimsfaraldurinn og afleiðingar hans. „Við þurfum að kalla eftir meiri stöðugleika og að þörfinni fyrir vinnuafl verði fyrst og fremst mætt með þeim sem búa hér. Svo verði leitað út fyrir landsteinana ef mæta þarf einhverjum toppum í atvinnulífinu,“ segir Aðalsteinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert