Endurráðningar komnar af stað hjá Bláa lóninu

Bláa lónið er byrjað að endurráða starfsfólk sem missti vinnuna …
Bláa lónið er byrjað að endurráða starfsfólk sem missti vinnuna í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bláa lónið hefur verið vel sótt að undanförnu og hafa allar rekstrareiningar verið opnar síðan í vor. Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs hjá Bláa lóninu. Hún segir stjórnvöld þurfa að svara fyrir það hvernig við ætlum að lifa með veirunni til lengri tíma.

„Það hefur verið góð aðsókn í Bláa lónið að undanförnu og bara gaman að geta tekið aftur á móti bæði erlendum gestum sem og Íslendingum,“ segir Helga.

Varðandi þær aðgerðir sem nú eru í gildi innanlands og á landamærum segir hún: „Við bara högum starfseminni eftir þeim reglum sem settar eru hverju sinni og breytum ferlum til að koma til móts við gesti okkar á hverjum tíma.“

Hún segist þó hafa áhyggjur, líkt og aðrir aðilar í ferðaþjónustu, af að Ísland lendi á svokölluðum rauðum lista, á samevrópska litakóðunarkerfinu. Við það gætu aðrar þjóðir sett takmarkanir á ferðalög til Íslands, eða jafnvel bannað þau. „Það myndi hafa afar neikvæð áhrif, sér í lagi ef við myndum ílengjast á honum. Ekki aðeins fyrir ferðaþjónustuna heldur fyrir efnahag landsins í heild sinni.“

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu. mbl.is/Golli

Endurráðningar farnar af stað            

Bláa lónið þurfti vegna faraldursins að segja upp mörg hundruð starfsmönnum á síðasta ári. Heilt yfir var tæplega sex hundruð manns sagt upp í þremur lotum. Helga segir þó endurráðningar hafnar að hluta og að nú starfi rúmlega 400 manns hjá fyrirtækinu. „Við höfum verið svo lánsöm að geta endurráðið hluta af þessu fólki sem missti störf sín hjá okkur í faraldrinum. Þá hefur það fyrst og fremst verið framlínufólk í öllum þjónustueiningum, sérfræðingar og starfsmenn í stoðdeildum.“

Hún segir eðlilega eitthvað hafa borið á því að fólk sé búið að ráða sig til vinnu annars staðar en engu að síður hafi gengið ágætlega við að ráða til baka fyrrum starfsmenn. „Við höfum almennt séð verið heppin með það að margt af okkar góða starfsfólki hefur verið viljugt að koma aftur til okkar og starfa með okkur. Það skiptir okkur gífurlega miklu máli enda búa þeir starfsmenn yfir mikilli reynslu og þekkingu sem er gífurlega mikilvæg og mikil verðmæti í,“ segir Helga.

Erfitt að segja til með framhaldið 

Spurð hvort hún sé bjartsýn á framhaldið í ferðaþjónustunni segir Helga: „Ég hefði nú örugglega svarað þér með öðrum hætti í síðustu viku, þ.e. áður en fjórða bylgjan skall á. En það að við séum búin að bólusetja stærstan hluta þjóðarinnar og eins að þeir sem koma til landsins séu þegar bólusettir eða búnir í sóttkví hlýtur að skipta gríðarlega miklu máli þegar að maður lítur fram á veginn.“ 

Hún bendir einnig á að ferðamynstur ferðamanna hafi verið að breytast.  „Sú jákvæða þróun hefur átt sér stað að gestir virðast verið að dvelja lengur og njóta afþreyingar í auknum mæli.  Ég held að við séum nú að fá þá ferðamenn sem við höfum svo lengi sóst eftir, þá sem skilja meira eftir sig,“ segir Helga.   

Helga segir að vissulega þurfi að tryggja stöðugleika og jafnvægi í rekstrarumhverfi greinarinnar. „Það er afar erfitt að glíma við það þegar landinu er lokað eða það opnað á víxl og það með stuttum fyrirvara. Það getur engin atvinnugrein lifað við slík rekstrarskilyrði.“   

Getið þið þá tekið undir ákall um aukinn fyrirsjáanleika í baráttunni við veiruna? 

„Mögulega er ósanngjarnt að kalla eftir fullkomnum fyrirsjáanleika þegar um ræðir fordæmalausar aðstæður, en skýr stefna ætti að geta legið fyrir. Hvernig menn ætla að horfa til efnahagslegra þátta og móti sóttvarnaþáttum er eitthvað sem ég myndi telja að greinin og atvinnulífið í heild sinni hljóti að kalla eftir. Hvernig við ætlum að lifa með veirunni til lengri tíma er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að svara fyrir.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert