Íslendingar búnir að læra að standa í röð

Síðustu tvo daga hafa 8.400 sýni verið tekin vegna veirunnar.
Síðustu tvo daga hafa 8.400 sýni verið tekin vegna veirunnar. mbl.is/Unnur Karen

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri sýnatöku hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir vel hafa gengið í sýnatökunni í dag. Sambærilegur fjöldi sýna var tekinn í dag og í gær eða um 4.200 sýni.

Spurð hver munurinn á deginum í dag og í gær sé segir Ingibjörg: „Við vorum bara með fleira fólk í dag og við erum bara að reyna að vinna í því.“ Hún segir teymið hafa bolmagn til þess að tækla þennan fjölda en segir þó, „við erum að kalla eftir aðstoð. Húsrýmið leyfir ekkert mikið fleiri í viðbót og spítalinn getur auðvitað ekki tekið endalaust af sýnum.“

Hún segir á tímabili hafa verið verulega langa röð, en annars hafi þetta gengið nokkuð smurt fyrir sig. „Auðvitað var röð, en við náðum samt að klára alla og loka húsinu tíu mínútur yfir fjögur.“

Væri hægt að segja að þið gætuð að hámarki tekið 1.000 manns ofan á það sem er í dag. Það sé ákveðið hámark?

„Við gætum tekið miklu fleiri ef við bætum í mannskap, húsnæði og tíma. En ég er svona að vonast til þess að við séum að ná hámarkinu. Það er alltaf erfitt að giska út í loftið, en við bara þurfum að bregðast við hverju sinni. Þannig erum við Íslendingar, það er bara brugðist við og gengið í málin. Akkúrat núna höldum við bara dampi, en ef það verður einhver margföldun á fjölda, þá þarf bara að skoða það.“

Fólk tekur þessu með ró

Hún segir fólk nær undantekningalaust sýna því skilning að það sé bið. Hún segir starfsfólk í auknum mæli farið að labba út og reyna að draga inn það fólk sem mögulega hefur ekki heilsu til þess að standa lengi í röð úti. „Auðvitað getur fólk verið stressað og þess háttar. En okkar upplifun er að allir taki þessu með stóískri ró, eða láta þetta ekki bitna á okkur alla vega.“

Hún segir gaman að sjá fólk taka röðinni með ró. „Það kom að því að Íslendingar lærðu að standa í röð. Fólk hefur bara verið að gera þetta vel og rétt. Við höldum bara áfram, þetta er bara verkefni og við ætlum að leysa það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert