Að vera faðmaður af ljúfum loðfíl

Hrafnhildur Arnardóttir, sem notar listamannsnafnið Shoplifter, opnar bráðlega safnið sitt …
Hrafnhildur Arnardóttir, sem notar listamannsnafnið Shoplifter, opnar bráðlega safnið sitt Höfuðstöðina en þar mun verk hennar Chromo Sapiens vera til frambúðar. mbl.is/Ásdís

Hrafnhildur tekur brosandi á móti blaðamanni, í skærlitum fötum eins og hennar er von og vísa. Hún er með blágrænar augabrúnir og ýmsa liti í hárinu sem eru í stíl við verkin hennar, sem unnin eru úr hári; annaðhvort alvöru mannshári eða gervihári. Sýningin er klár en það er enn allt á rúi og stúi í móttöku- og fjölnotabragganum.

Hrafnhildur hefur dvalið á Íslandi síðan faraldurinn hófst og hefur ekki setið auðum höndum, en hún hafði lengi haft augastað á bröggunum og hafði fyrirætlanir um að þar skyldi rísa lista- og menningarmiðstöð í þessari földu perlu í Ártúnsbrekkunni. Hún brennur í skinninu að opna braggana sína almenningi og leyfa fólki að njóta listar, náttúru og veitinga.

Sveitasæla í Reykjavík

„Við erum búin að vera að gera þetta allt saman upp, en þetta er meiriháttar hús. Við ætlum að opna hér kaffihús með þessum líka stóra útipalli sem snýr í suður. Ég hugsa að þetta verði besti staðurinn til að fara á trúnó á Íslandi,“ segir Hrafnhildur og lýsir framtíðarsýn sinni, en braggana tvo keyptu hún og samstarfskona hennar Lilja Baldursdóttir nýlega.
„Hér er maður alveg við Elliðaárdalinn og ekkert sem byrgir manni sýn á náttúruna. Fólk þarf ekkert endilega að koma á sýninguna, heldur getur það komið á kaffihúsið. Þetta er sveitasæla inni í miðri Reykjavík og allt annað andrúmsloft en í miðbænum,“ segir Hrafnhildur og segist sjá fyrir sér að í hinum fimm bröggunum verði einnig lista- og menningarstarfsemi af einhverju tagi.

„Þetta er svo tryllt! Ég er svo ofboðslega spennt fyrir þessu!“ segir Hrafnhildur sem valdi það alíslenska nafn Höfuðstöðin fyrir menningarhof sitt.

Höfuðstöðin er í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku.
Höfuðstöðin er í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku.

„Þetta eru ekki höfuðstöðvar, heldur Höfuðstöðin. Hárið vex á höfðinu, við erum á Höfðanum, á Rafstöðvarvegi. Svo er höfuðstöðin sjöunda orkustöðin samkvæmt jógafræðum. Þar býr víst sælan,“ segir Hrafnhildur og segir að þær vildu alls ekki hafa nafnið á ensku.

Verkið á heima hér

Hrafnhildur segir verkið þannig úr garði gert að það passi alls ekki inn í hvaða rými sem er, og auk þess sé dýrt að setja það upp. Það var geymt í gámi um hríð en listasöfn erlendis höfðu falast eftir að setja það upp hjá sér.

„Mig dreymdi um að verkið fengi að eiga heima á Íslandi og standa hér. Það er ekki endilega öll myndlist til þess fallin að vera til sýnis um ókomna tíð, en mér finnst þetta verk standa undir því að laða til sín gesti til langs tíma. Þetta verk er mikið upplifunarverk og verkið nú þegar búið að sanna sig hvað varðar aðdráttarafl. Chromo Sapiens er svo mikið litabað; svo mikil heilun að dvelja inni í verkinu og njóta hljóðmyndar HAM sem er sérsamin fyrir verkið,“ segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur stendur inni í verkinu sínu Chromo Sapiens sem hún …
Hrafnhildur stendur inni í verkinu sínu Chromo Sapiens sem hún segir kveikja á hamingjustöðvum hjá fólki. mbl.is/Ásdís

„Verkið fannst mér eiga heima hérna. Og svo allt í einu sé ég þessa bragga til sölu! Ég bjó í Ártúnsholtinu um tíma og fjölskyldan er hér enn þá þannig að ég elska þetta hverfi og dalinn og það er löngu tímabært að hér sé opnað kaffihús og áningarstaður sem stuðlar að samveru fólks. Svo hef ég alltaf haft áhuga á óvenjulegum arkitektúr og verið sjúk í þetta braggaform síðan ég var lítil stelpa. Allt sem ég geri þarf að vera pínulítið skringilegt. Þetta small allt saman,“ segir hún.

Engin kona opnað slíkt hof

„Þetta á að vera Shoplifter-safn, alveg eins og safn Einars Jónssonar eða Ásmundar Sveinssonar. Þeir byggðu sér sjálfir hof en ég held að engin núlifandi íslensk kona hafi gert það upp á eigin spýtur. Ég er með þessa sýn fyrir þetta verk og Lilja er meðstofnandi og fjárfestir í verkefninu,“ segir Hrafnhildur og útskýrir að þær stöllur séu að kosta verkefnið sjálfar og hafi sett af stað söfnun á Kickstarter til þess að hjálpa til við að greiða fyrir framkvæmdirnar sem reyndust þó nokkrar. Hugmyndin er að safna tólf milljónum og nú þegar hefur rúmlega helmingur af því safnast. Sá hængur er á söfnuninni að ef ekki næst að safna tólf milljónum fyrir sunnudaginn 8. ágúst 2021, þá fæst fjármagnið ekki greitt.
Á Kickstarter-síðunni er boðið upp á að kaupa ýmsan varning tengdan Höfuðstöðinni og er Hrafnhildur í samstarfi við Karlssonwilker grafík- og vöruhönnuði. Á síðunni er svo líka hægt að eignast listaverk eftir Shoplifter, bóka fjölnota salinn og einfaldlega kaupa miða á sýninguna fyrirfram.

Hægt er að kaupa ýmsan varning á Kickstarter-síðunni sem þær …
Hægt er að kaupa ýmsan varning á Kickstarter-síðunni sem þær hafa opnað.

Fjáröflun á Kickstarter

Við setjumst upp á efri hæð þar sem Lilja situr við tölvuna við vinnu sína. Blaðamanni verður að orði að það líti út fyrir að Hrafnhildur hafi nóg að gera í listinni, og nú hafi hún bætt við sig þeirri vinnu að opna Höfuðstöðina.

Ertu í 200% vinnu?

„Mér myndi aldrei detta í hug að gera þetta ef ég hefði ekki Lilju mér til trausts og halds!“ segir hún og þær hlæja báðar.

Hrafnhildur Arndóttir og Lilja Baldursdóttir vinna náið saman og hafa …
Hrafnhildur Arndóttir og Lilja Baldursdóttir vinna náið saman og hafa gert í fimm ár. Ljósmynd/Frosti Gnarr

„Ég ýti undir aðgerðir eins og að opna listasetur. Ég er listrænn framleiðandi og vinn með skapandi fólki að viðskiptahliðinni í þeirra rekstri. Ég rek fyrirtækið Artik Creatives og hef unnið með Hrafnhildi í fimm ár sem framleiðandi og eins konar framkvæmdastjóri Shoplifter, og nú bætist við Höfuðstöðin,“ segir Lilja.

„Við erum að fjárfesta í þessu saman úr eigin vasa og erum að vona að Kickstarter-verkefnið gangi upp,“ segir Lilja og sýnir blaðamanni Kickstarter-síðuna en þar má finna til sölu derhúfur, boli, prentverk og líka listaverk, eins og það sem Hrafnhildur kallar Broskalla. Einnig er fyrirhugaður fjáröflunarviðburður þar sem Björk mun þeyta skífum, en vegna stöðunnar á veirunni er dagsetningin enn óákveðin.

Höfuðstöðin er í bröggunum í Ártúnsbrekku, en Hrafnhildur og Lilja …
Höfuðstöðin er í bröggunum í Ártúnsbrekku, en Hrafnhildur og Lilja vildu hafa nafnið íslenskt. Ljósmynd/Hjalti Karlsson

„Allt sem við söfnum rennur beint í framkvæmdir en kostnaðurinn er mikill. Við viljum opna hægt og rólega. Við byrjum á að opna með léttum veitingum og bíðum bara eftir leyfunum,“ segir Lilja.

Kom Hrútey á kortið

Í Hrútey við Blönduós má finna sýninguna Boðflennu; sýningu á útilistaverkum Shoplifter sem opnuð var í júníbyrjun og mun standa út ágúst. Sýningin er unnin í samstarfi við listahjónin Áslaugu Thorlacius, myndlistarmann og skólastjóra Myndlistaskóla Reykjavíkur, og Finn Arnar Arnarsson myndlistarmann, og eru þau sýningarstjórar Boðflennu.

Hrafnhildur, Shoplifter, sýnir útilistaverk í Hrútey og stendur sýningin út …
Hrafnhildur, Shoplifter, sýnir útilistaverk í Hrútey og stendur sýningin út ágúst. mbl.is/Einar Falur

„Ég gerði stóra súlu og bætti svo inn í, víða um eyjuna, hári sem ég hef unnið á ólíkan hátt. Þetta var leikur með efniviðinn og náttúruna. Það sem gerist þegar þú sérð aðskotahlut, þá ferðu að skoða náttúruna öðruvísi. Það var meiriháttar gaman að vinna að þessari sýningu og aðsóknin hefur verið mjög góð. Ég held ég hafi sett Hrútey á kortið,“ segir Hrafnhildur og skellihlær.

Gengið inn í litadýrð

„Við erum ekki búnar að stoppa og það má kannski ekki segja að Covid hafi fært manni nauðsynlega hvíld á ferðalögin. Mig var farið að langa svolítið að vera kjur. Líka svo ég gæti unnið að minni verkum, sem fólk vildi eignast, og njóta sín á heimilum frekar en flennistórar innsetningar. Ég hef ekki haft mikinn tíma fyrir þá vinnu sem ég nýt virkilega, því það hefur verið stöðug eftirspurn eftir stórum innsetningum í sýningarsali víðs vegar um heim. Sem er að sjálfsögðu dásamlegt, en hitt situr þá á hakanum,“ segir Hrafnhildur en hún vinnur einmitt um þessar mundir að stóru verki sem verður í eigu Listasafns Reykjavíkur.

Hrafnhildur getur ekki beðið eftir að opna Höfuðstöðina.
Hrafnhildur getur ekki beðið eftir að opna Höfuðstöðina. mbl.is/Ásdís

„Það er eins og meðalsnjóhús í laginu og fólk gengur þar inn í litadýrð. Þetta verður eins og hugleiðsluhof, en það er eitthvað við alla þessa liti sem lætur fólki líða vel og lætur það finna fyrir aukinni hamingju. Vandamálin fá að hverfa og fólk gleymir sér um stund, því þetta er í raun svo æpandi og skært, en á svo mjúkan hátt, því áferðin er þannig. Þetta er svolítið eins og að vera faðmaður af ljúfum loðfíl.“

Stress er Satan

„Í tuttugu og fimm ár hef ég aldrei verið hér svona lengi í einu; upplifað fjórar árstíðir í röð. Ég er ekkert búin að fara heim til New York og er farin að sakna borgarinnar,“ segir hún.

„Svo komu braggarnir upp í hendurnar á okkur og það var bara að hrökkva eða stökkva,“ segir hún og segir þessa hugmynd aldrei hafa komið til ef ekki hefði skollið á heimsfaraldur.
„Að því leyti hafði Covid áhrif á verk mín og ég gat gert útilistasýningu í Hrútey á vegum Á Kleifum, klárað ýmis verk og gert alls kyns tilraunir. Þannig að þetta hefur verið blessun í dulargervi. Eða blessun í læknasloppi?“ segir hún hugsi.

„Svo hef ég getað verið miklu meira með fjölskyldunni, foreldrum mínum sem standa við bakið á mér í gegnum allt sem á gengur, þannig að þetta hefur verið kærkomið tímabil þrátt fyrir allt.“

Stress er Satan, er nýjasta mottóið hennar Hrafnhildar.
Stress er Satan, er nýjasta mottóið hennar Hrafnhildar.

Um leið og hún sleppur orðinu grípur hún um snjallúrið sitt sem var farið að titra.

„Æ, það er bara að segja mér að anda! Ég hlýði því, enda er nýja mottóið mitt: Stress er Satan!“

Ítarlegt viðtal við Hrafnhildi er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert