Segir styttingu á einangrunartíma bæta stöðuna

Gylfi segir að eins og komið er hafi ekki þurft …
Gylfi segir að eins og komið er hafi ekki þurft að vísa mörgum einstaklingum frá sem óska eftir plássi í farsóttarhúsunum. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsanna, segir að stytting á tíma einangrunar hjá bólusettum aðilum sem greinast með Covid-19 muni koma til með að bæta stöðu farsóttarhúsanna sem öll eru fullnýtt.

„Einhverjir gestir hjá okkur eru byrjaðir að fá þessi útskriftarsímtöl þannig að mér sýnist að á mánudaginn muni eitthvað losna hjá okkur og eitthvað mun losna líka í dag og á morgun,“ segir hann.

Hann segir stöðu farsóttarhúsanna þá sömu og hefur verið undanfarna daga, verið sé að nýta öll laus herbergi sem fyrir finnast og um leið og herbergi losni sé það bókað aftur.

„Við vonumst til þess að geta komið með einhverjar betri lausnir síðar í dag eða á morgun og jafnvel opnað nýtt hús. Það er í framkvæmd, við erum að bíða eftir að sjúkratryggingar og heilbrigðisráðuneytið gangi frá því og ég veit að sú vinna er í gangi.“

Hafa ekki þurft að vísa mörgum frá

Gylfi segir að eins og komið er hafi ekki þurft að vísa mörgum einstaklingum frá sem óska eftir plássi í farsóttarhúsunum, „við höfum náð að koma flestum fyrir, sem betur fer“, bætir hann við.

„Þó hafa einhverjir þurft að bíða kannski í um sólarhring eftir plássi og verið þá í einangrun heima hjá sér á meðan. Þetta er að bjargast hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert