Þegar Stuðmenn frestuðu Þjóðhátíð

Stuðmenn hafa oft komið fram á Þjóðhátíð og ætíð vakið …
Stuðmenn hafa oft komið fram á Þjóðhátíð og ætíð vakið mikla lukku fyrir rífandi sviðsframkomu sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir sitja eftir með sárt ennið eftir að Þjóðhátíð var frestað í ár. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hátíðinni er frestað en árið 1982 fengu Stuðmenn að fresta hátíðinni um eina viku, þó ekki vegna heimsfaraldurs.

Frétt úr Morgunblaðinu 31. júlí 1982.
Frétt úr Morgunblaðinu 31. júlí 1982. Morgunblaðið

„Við vorum í tökum víða um landið að taka upp kvikmyndina Með allt á hreinu“. Síðan höfðum við ákveðið að lokakafli myndarinnar ætti að gerast á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og við urðum að fara fram á það að Þjóðhátíð yrði frestað þannig að við gætum tekið lokakaflann upp þar,“ segir Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon í samtali við mbl.is.

Mikinn sannfæringarmátt þurfti til þess að fá hátíðinni frestað í þessum tilgangi, að sögn Jakobs.

„Þetta var auðvitað ekkert einfalt, auðvelt né sjálfsagt en þeir sem féllust á þessa hugmynd voru fleiri en þeir sem voru andsnúnir henni,“ segir hann. „Þeir sem sáu glóruna í þessu hafa sennilega séð aðeins fram á veginn og að þarna gæti verið um að ræða dýrmæta kynningu á landkostum Vestmannaeyja og þeirri þjóðhátíðarmenningu sem þar hefur lifað í á annað hundrað ár,“ segir Jakob sem rifjaði upp skondin atvik frá hátíðinni í Þjóðhátíðarblaði Vestmannaeyja 2002.

Slógu öll aðsóknarmet

Að mati Jakobs hafi það þó verið af hinu góða að hátíðinni var frestað enda átti kvikmyndin „Með allt á hreinu“ eftir að sigra hug og hjarta landsmanna. 

„Þetta er ein langfjölsóttasta kvikmynd Íslandssögunnar og er hún enn árlegur liður í 17. júní-dagskrá Ríkisútvarpsins nú 40 árum eftir að hún kom fyrst út. 

Þetta er hin prýðilegasta áróðursmynd fyrir Vestmannaeyjar sérstaklega nú á tímum þeirrar höfuðbúgreinar sem ferðaþjónustan er orðin.

Frétt úr Morgunblaðinu 11. júlí 1982.
Frétt úr Morgunblaðinu 11. júlí 1982. Morgunblaðið

Það hafa margir furðað sig á því að þetta hafi tekist en Guð og góðar vættir voru þarna með okkur í liði og með haganlegri blöndu af mýkt og rökfestu var sýnt fram á að þetta væri góð hugmynd,“ segir hann.

Fjórum árum eftir tökur á myndinni stigu Stuðmenn aftur á svið á Þjóðhátíð og slógu þar öll fyrri aðsóknarmet.

„Ég held við höfum farið úr 3.500 gestum í rúmlega 10.000 gesti á því drottins ári,“ segir Jakob að endingu.

Frétt úr Morgunblaðinu 6. ágúst 1986.
Frétt úr Morgunblaðinu 6. ágúst 1986. Morgunblaðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert