Komið að endurnýjun bílsins

Undanfarin ár hefur Blóðbankabíllinn farið í 90-100 ferðir á ári. …
Undanfarin ár hefur Blóðbankabíllinn farið í 90-100 ferðir á ári. Heimsóknir blóðgjafa í bílinn hafa verið 1.000-1.500 á ári á þeim svæðum sem ekki var hægt að heimsækja í Covid-faraldrinum. Ljósmynd/Blóðbankinn

Brýn þörf er á að endurnýja Blóðbankabílinn, að mati Sveins Guðmundssonar, yfirlæknis Blóðbankans. Rauði krossinn gaf bílinn árið 2002 og hófst rekstur hans árið eftir.

„Bíllinn er kominn til ára sinna og það er forgangsmál hjá okkur að fá fjárveitingar til endurnýjunar en það hefur ekki enn reynst mögulegt,“ sagði Sveinn. Bíllinn hefur þurft mikið viðhald síðustu 3-4 ár. Oft hefur þurft að aflýsa blóðsöfnunarferðum á síðustu stundu vegna bilana.

Sveinn kveðst vona að með auknum skilningi á fjárþörf Landspítalans verði hægt að bregðast við endurteknum beiðnum um fé til nýs blóðbankabíls. Hann bindur vonir við að fjárveiting fáist á fjárlögum þannig að útboð geti farið fram á næsta ári og nýr blóðsöfnunarbíll komi 2023.

Óskastaðan er að Blóðbankabílarnir verði tveir, annar á höfuðborgarsvæðinu og hinn á Norðurlandi. Starfsstöðvar blóðsöfnunar eru nú í Reykjavík og á Akureyri. Blóðbankabíllinn hefur svo verið þriðja stoðin í blóðsöfnuninni.

„Akureyri og Norðurland hafa verið að styrkja sig í blóðsöfnun síðustu árin,“ sagði Sveinn. „Ef við lítum á Norðausturland og Austfirði sem sama upptökusvæði og Akureyri þá má gera ráð fyrir 2.500-3.000 einingum af blóði árlega á því landsvæði. Með tveimur bílum opnast möguleikar á að safna meira en helmingi blóðs í Blóðbankabílunum. Það verður hagkvæmara fyrir þjóðfélagið að Blóðbankinn komi til fólksins, í stað þess að fólkið þurfi allt að koma í Blóðbankann. Þetta mun kalla á bætta mönnun en verður hagkvæmt á þjóðarvísu. Við þurfum að gefa fleirum tækifæri til að gefa blóð.“

Nánari umfjöllun er að finna í blaðinu sem kom út laugardaginn 11. september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert