Aspirnar felldar á Selfossi

Aspirnar eru níu talsins og voru gróðursettar fyrir um 30 …
Aspirnar eru níu talsins og voru gróðursettar fyrir um 30 árum síðan. Morgunblaðið/Sigmundur Sigurgeirsson

Ráðist var í að fella níu aspir sem liggja við Austurveg á Selfossi kl. 20 í kvöld. Bæjarstjóri Árborgar segir að um sé að ræða ráðstöfun er snúi að umferðaröryggi.

„Þær [aspirnar] trufla sjónlínuna á gangandi vegfarendur sem koma og fara úr Krónunni,“ segir Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri Árborgar í samtali við mbl.is.

Hann segir lögregluna fyrst hafa bent á þetta í bréfi sem tekið var fyrir í umhverfisnefnd um mitt sumar. Í kjölfarið hafi Vegagerðin bent á þetta á fundi fyrir þremur vikum. „Þeir eru auðvitað veghaldari og vita um hvað þeir eru að tala um,“ segir Gísli en gatan sem um ræðir er hluti af hringveginum.

Ekki um vinsældir heldur öryggi

„Við hjá Árborg erum alveg sammála því að þetta skapi hættu fyrir gangandi vegfarendur,“ segir Gísli en í kjölfar fundarins var ákveðið að fjarlægja aspirnar og mun Vegagerðin einnig bæta gangbraut sem er við veginn og mögulega setja gangbrautarljós. Þá munu eflaust annars konar tré eða aðrar plöntur vera settar niður í stað aspanna.

Gísli segist skilja þau sem eru ósátt með breytinguna. „Auðvitað elska Selfyssingar trén sín, enda er gríðarlega gróðursælt á Selfossi. Trén veita mikið skjól og þetta er fallegt. Við skiljum það alveg. En það er ekkert hægt að fresta því sem er óumflýjanleg. Þetta snýst auðvitað ekki um vinsældir heldur öryggi vegfarenda.“

„Trén veita mikið skjól og þetta er fallegt. Við skiljum …
„Trén veita mikið skjól og þetta er fallegt. Við skiljum það alveg.“ Morgunblaðið/Sigmundur Sigurgeirsson

Gróður hægi á umferð

„Mér var brugðið vegna þess að koma upp trjám í bæjarumhverfinu er það sem allir eru að reyna að gera núna og það er líka talið að tré í götumyndum geti hægt á umferð og bætt þannig umhverfisöryggi,“ segir Þráinn Hauksson landslagsarkitekt en hann var annar þeirra sem átti hugmyndina að gróðursetja trén fyrir um 30 árum.

„Ef maður væri að gera þetta í dag hefði maður sjálfsagt tekið aðrar tegundir með inn í myndina. Öspin er náttúrulega rosalega aggresíf tegund og vex hratt og mikið en gerir líka mikið í svona umhverfi til bóta. Skjólmyndun í íslenskri veðráttu,“ segi Þráinn og ítrekar mikilvægi gróðurs í götumyndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert