Óboðlegt að nýtt flugskýli bíði lengur

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir …
Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum í dag. Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kveðst ótrúlega ánægð með að nýtt flugskýli Landhelgisgæslunnar sé nú loks að verða að veruleika enda sé það nauðsynlegt fyrir störf hennar. Segir Áslaug það jafnframt algjörlega óboðlegt að betri aðstaða Gæslunnar hafi verið sett í biðstöðu vegna umræðna um Reykjavíkurflugvöll enda varði það öryggi þjóðarinnar. Mæðir nú mikið á LHG og því sjaldnar jafn mikilvægt að aðstaða sé í lagi og í samræmi við þann búnað sem Gæslan býr yfir.

Á blaðamannafundi fyrr í dag kynnti Georg Kr. Lárusson forstjóri LHG, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Ólöf Birna Ólafsdóttir flugrekstrarstjóri LHG, framkvæmdir á nýja flugskýlinu sem reisa á við skýlið sem nú er í notkun. Áætlað er að nýja skýlið verði tilbúið fyrir mitt næsta ár en það mun telja um 2.822 fermetra til viðbótar við gamla skýlið.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi Landhelgisgæslunnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum komin með þrjár fullbúnar björgunarþyrlur og fyrir þær eru ekki pláss og heldur ekki viðeigandi aðstaða fyrir starfsmenn hér á Reykjavíkurflugvelli. Með þessu held ég að við séum að koma verulega til móts við þá aðstöðu sem Landhelgisgæslan á skilið. [...] Þetta eru búin að vera ótrúleg tvö ár með óveðrum, snjóflóðum, aurskriðum eldgosi og heimsfaraldri, þannig að Landhelgisgæslan hefur auðvitað gengt stóru hlutverki í öllum þeim atburðum,“ sagði Áslaug í samtali við mbl.is.

Gamla skýlið barn síns tíma

Að sögn Georgs Kr. Lárussonar, forstjóra LHG, er skýlið sem nú er í notkun löngu orðið barn síns tíma enda hafi það verið byggt á tímum seinni stríðsáranna, eða 1943, af breska flughernum. Stenst það hvorki öryggiskröfur né rúmar það flugflota LHG. Hefur það meðal annars leitt til þess að loftför hafi verið geymd utandyra sem er ekki æskilegt enda eru þetta viðkvæm tæki sem þola illa að standa þar til lengri tíma. Auk þess hefur starfsmannaaðstaðan verið ábótavön.

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eins og málin eru í dag þá er engin hvíldaraðstaða fyrir áhöfn eða aðra starfsmenn. Áhafnir eru oft að koma úr krefjandi útköllum og á leið í önnur. Þá er mjög gott að hafa afdrep þar sem menn geta safnað kröftum fyrir næsta verkefni,“ sagði Georg.

Með tilkomu nýja skýlisins verður bætt úr þessu en það mun hýsa skrifstofur flugdeildar, mötuneyti starfsmanna, búningsklefa og hvíldarrými starfsfólks.

Ólöf Birna Ólafsdóttir flugrekstrarstjóri kynnir framkvæmdir á nýja skýlinu á …
Ólöf Birna Ólafsdóttir flugrekstrarstjóri kynnir framkvæmdir á nýja skýlinu á blaðamannafundi fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalatriðið er þó aukið rými undir flugflotann en með nýja skýlinu verður loks sér rými fyrir þær vélar sem sinna eingöngu útköllum og annað fyrir langtíma geymslu og þar sem viðhaldi er sinnt. Segir Georg það bæði stuðla að betra starfi LHG þar sem auðveldara verður að fara í útköll og einnig eldvörnum en eins og staðan er núna er allur floti Gæslunnar undir sama þaki sem er ekki æskilegt ef eldur skildi koma upp.

Hægt að færa það af flugvellinum

Líkt og fram kom í máli Áslaugar hefur umræða um viðveru Reykjavíkurflugvallar haft áhrif á byggingu nýs flugskýlis. Að sögn Georgs liggur nú fyrir að flugvöllurinn standi til ársins 2032 hið minnsta. Hins vegar sé gott að vita til þess að skýlið verði byggt með þeim hætti að hægt verði að skrúfa það í sundur og færa milli svæða, ef að því skyldi koma. 

Áslaug tekur undir þau orð. „Ef það verður staðan í einhverri náinni eða fjarlægri framtíð þá verður auvitað að vera hægt [að færa skýlið] en á meðan að það er enn þá óljóst þá tel ég óforsvaranlegt að byggja ekki og tryggja þá aðstöðu sem Landhelgisgæslan þarf fyrir sitt fólk og sinn búnað.“

Upphafið af framkvæmdinni veltur nú á útboði jarðvinnunnar og hefur það núþegar verið auglýst. Stefnt er á að hefja störf um leið og því lýkur. Öryggisfjarskipti ehf. munu síðan annast byggingu flugskýlisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert