Tíu jákvæðir eftir hrað- og PCR-próf

Fólk í biðröð eftgir hraðprófi fyrr í mánuðinum.
Fólk í biðröð eftgir hraðprófi fyrr í mánuðinum. mbl.is/Unnur Karen

Fyrir helgi höfðu um tíu manns greinst jákvæðir á hraðprófum við Covid-19 og verið með staðfesta sýkingu í kjölfarið að loknu PCR-prófi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir marga greinast falskt jákvæða í hraðprófum, þ.e. fá jákvætt svar í hraðgreiningarprófi á þeim stöðum sem boðið er upp á þau en síðan neikvætt á PCR-prófi.

Hann segir aðsóknina í hraðgreiningarprófin samt ekki hafa verið mikla hjá heilsugæslunni hingað til.

„Held að þetta sé ágætislausn“

Spurður út í reynsluna af þeim tilslökunum sem tóku gildi í síðustu viku kveðst hann ekki geta svarað því. „Ég veit ekki hvernig framkvæmdin hefur verið, hef ekki heyrt neitt um það. Það sem ég er að fylgjast með er hvort það verður breyting á fjölda þeirra sem við erum að greina, hvort hann breytist eitthvað. Við þurfum kannski að bíða aðeins lengur eftir því að geta svarað því,” segir Þórólfur.

Á laugardaginn var tilkynnt að þeir sem eru í einangrun eða sóttkví á kjördag munu geta greitt atkvæði úr bílum sínum eða á eigin dvalarstað samkvæmt nýjum leiðbeiningum dómsmálaráðuneytisins.

Þórólfur segir vera ánægður með þessa framkvæmd. Sýslumaðurinn hafi verið í sambandi við sóttvarnalækni. „Ég held að þetta sé ágætislausn og það það séu allir sáttir við hana.”

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfitt að spá fyrir um næstu afbrigði

Inntur eftir viðbrögðum við ummælum Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um að næstu afbrigði kórónuveirunnar verði mun skárri en Delta, kveðst Þórólfur ekki treysta sér til þess að fullyrða neitt um það.

„Það er erfitt að spá fyrir um það í raun og veru. Þessi afbrigði sem menn hafa verið að finna hafa ekki náð sér neitt á strik og vonandi helst það þannig,” bætir hann við.

Frá bólusetningu við kórónuveirunni í Laugardalshöll í ágúst.
Frá bólusetningu við kórónuveirunni í Laugardalshöll í ágúst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segist einnig fylgjast vel með stöðu mála í Danmörku þar sem öllum takmörkunum hefur verið aflétt. Ekki sé komin fullkomin reynsla á málin þar. Einnig þurfi í samhenginu að túlka hversu mörg próf séu tekin og hversu margir séu að leggjast inn á sjúkrahús.

„Í Bretlandi gæti virst sem svo að nýgengi á smitum er að fara niður en þegar maður sér að þeir eru að fækka prófum sem þeir eru að taka þá gæti það skýrt færri fjölda tilfella sem eru að greinast. Þar er töluvert aukning á spítalainnlögnum og dauðsföllum og þess vegna þarf að skoða þetta út frá víðu sjónarhorni,” segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert