Sex milljarða afgangur af rekstri Karólínska sjúkrahússins

Björn Zöega, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð.
Björn Zöega, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð. mbl.is

Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi í Svíþjóð var rekið með 426 milljóna sænskra kr. afgangi á fyrstu átta mánuðum ársins, það samsvarar um 6,3 milljörðum íslenskra kr. 

Þetta kemur fram á vef Läkartidningen, sænska læknablaðsins, þar sem vísað er í fréttatilkynningu sem Björn Zoëga, forstjóri sjúkrahússins, sendi frá sér. 

Þar segir að þessi árangur hafi náðst þrátt fyrir að sjúkrahúsið hafi ekki fengið fullan fjárstuðning vegna þess viðbótakostnaðar sem hefur fylgt rekstrinum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn, sem nemi um 624 milljónum sænskra kr.  Björn segir sjúkrahúsið sé búið að fá 259 milljónir til að dekka þennan kostnað, en út af standi 365 milljónir sænskra kr. 

Fram kemur í greininni, að í maí sl. hafi sjúkrahúsið verið rekið með 99 milljóna sænskra kr. afgangi á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en það samsvarar um 1,4 milljörðum kr. 

Mikilvægasti þátturinn í rekstrarniðurstöðunni er sagður vera há framleiðni í tengslum við innlagnir og rannsóknaþjónustu. Þá hafa meðal annars verið framkvæmdar 260 fleiri skurðargerðir á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert