Deilt um innkeyrslu að lóð í Furugerði

Furugerði. Búið er að rífa gróðurhús Grænuhlíðar. Íbúðarhús munu rísa …
Furugerði. Búið er að rífa gróðurhús Grænuhlíðar. Íbúðarhús munu rísa þar. mbl.is/Árni Sæberg

Ágreiningur var nýlega í borgarráði þegar tekin var til afgreiðslu beiðni umhverfis- og skipulagssviðs um leyfi til að bjóða út framkvæmdir við gerð nýrrar aðkomu að lóðinni Furugerði 23.

Í borgarráði var beiðnin samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri-grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Vegna ágreinings fer málið næst til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.

Fram kemur í greinargerð að ný aðkoma að lóðinni Furugerði 23 verði annars vegar frá Furugerði og hins vegar frá Espigerði. Kostnaðaráætlun er 30 milljónir króna. Ekki er gert ráð fyrir að loka þurfi götum vegna framkvæmda og minni háttar truflun verði á umferð í nágrenninu.

Á lóðinni Furugerði 23 stóðu áður gróðurhús og byggingar sem tilheyrðu gróðrarstöðinni Grænuhlíð. Búið er að rífa þessi mannvirki.

Íbúar við Furugerði og nágrenni hafa frá upphafi mótmælt því að uppbygging á lóðinni yrði jafn umfangsmikil og raun varð á. Í sumar heimilaði Reykjavíkurborg að byggð yrðu þar tvö 10 íbúða fjölbýlishús á tveimur hæðum og 10 íbúða raðhús á tveimur hæðum með sameiginlegan bílakjallara á lóðinni. Hinar nýju byggingar verða samtals rúmlega 4.700 fermetrar. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert