Brunahætta í gömlum kirkjum

Miðgarðakirkja, kirkjan í Grímsey, var mjög falleg en er nú …
Miðgarðakirkja, kirkjan í Grímsey, var mjög falleg en er nú brunnin. mbl.is/Sigurður Ægisson

Friðlýstar kirkjur á Íslandi voru 216 talsins árið 2018, samkvæmt upplýsingum á vef Minjastofnunar. Þar á meðal voru 208 kirkjur sem voru reistar fyrir 1918 og voru sjálfkrafa friðlýstar. Eins átta kirkjur sem menntamálaráðherra hafði friðað að tillögu Húsafriðunarnefndar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun, segir að öll hús sem eru orðin aldargömul eða meira njóti friðunar. Auk þessa er vernd á öllum kirkjum sem voru byggðar 1940 eða fyrr. Margar steinsteyptar kirkjur falla þar undir, meðal annars kirkjur sem teiknaðar voru hjá Húsameistara ríkisins.

„Gömlu timburkirkjurnar hafa fengið tiltölulega góða umönnun. Það er búið að leggja mikla vinnu og fjármuni í endurgerð á elstu timburkirkjunum frá 19. öld og fram að 1918. Það eru ekki margar þeirra í reiðileysi. Svo kemur tímabilið eftir 1920 þegar reistar voru margar steinsteypukirkjur. Þar held ég að ástandið sé miklu verra og þær hafi ekki fengið sömu athygli og elstu kirkjurnar,“ segir Pétur.

Leiðbeiningar liggja fyrir

Varðandi kirkjubruna segir Pétur að Minjastofnun hafi í samvinnu við Mannvirkjastofnun samið leiðbeiningar um brunavarnir í friðlýstum kirkjum. Þar eru ýmsar hagnýtar ábendingar til að koma í veg fyrir að eldur kvikni. M.a. er bent á að brunaviðvörunarkerfið með reykskynjurum sé mikilvæg brunavörn. Einnig geti verið nauðsynlegt að koma fyrir slökkvikerfi, sérstaklega þegar langt er í slökkvilið.

Nýverið var gefinn út leiðarvísir um gerð viðbragðsáætlunar við vá í friðlýstum kirkjum. Þar eru sóknarnefndir hvattar til að skrá niður mikilvægustu kirkjumuni og ákveða hverju eigi að bjarga og í hvaða röð ef munir kirkjunnar lenda í hættu, t.d. vegna eldsvoða eða náttúruhamfara.

Þessi skjöl er að finna á heimasíðu Minjastofnunar undir gagnasafn og leiðbeiningarit.

„Það þyrfti líka að gera úttekt á ástandi raflagna í öllum gömlum kirkjum. Það er allur gangur á því hvernig ástandið er á þeim,“ segir Pétur, sem telur líkur benda til þess að rafmagn hafi valdið brunanum í kirkjunni í Grímsey í vikunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert