Dekk losnaði af strætó á ferð

Betur fór en á horfðist.
Betur fór en á horfðist. mbl.is/Kristinn Magnússon

Betur fór en á horfðist þegar hægra afturdekk losnaði undan strætisvagni í gær, í miðri beygju af Miklubraut yfir á Kringlumýrarbraut. 

„Dekkið rúllar á umferðareyju og stoppar þar, það má segja að það hafi verið lán í óláni að það hafi ekki endað á einhverjum eða hvað þá rúllað niður Kringlumýrarbrautina,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafultrúi Strætó.

Engin meiðsl urðu á fólki við atvikið.

Kominn tími á endurherðingu

Dekk þessa strætisvagns áttu að fara í endurherðingu á laugardaginn að sögn Guðmundar.

Dekkið á vinstri hlið vagnsins, sem þó enn tolldi á, var einnig orðið ansi tæpt að sjá.

Guðmundur segir að samkvæmt verkstæði Strætó geti það gerst að dekk séu mishert og óhreinindi eða drulla geti komist í dekkin sem veldur því að þau losna frekar. 

„Þetta gerist mjög sjaldan.“

Viðgerðir á vagninum eru afstaðnar og hefur hann aftur keyrslu í dag.

Hitt dekkið var orðið ansi tæpt að sögn Guðmundar.
Hitt dekkið var orðið ansi tæpt að sögn Guðmundar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert