Sofnaði í baði og vatn flæddi upp úr

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fór í tvö útköll í gærkvöldi vegna vatnsleka.

Íbúi í fyrstu hæð fjölbýlishúss á Kleppsvegi sofnaði í baði. Vatn flæddi upp úr og lak niður í kjallarann. Það var íbúi kjallarans sem vakti íbúann af værum blundi og var slökkviliðið látið vita um klukkan ellefu.

Smávegis tjón varð, að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Annað vatnstjón varð um áttaleytið þegar íbúi í fjölbýlishúsi í Mosfellsbæ var að bora í vegg og lenti á heitavatnslögn.

Vatnið fór um íbúðina og varð tjónið töluvert, að sögn varðstjórans. Starfsmanni tryggingafélags var afhentur vettvangurinn eftir að slökkviliðið hafði lokið störfum.

Farið var í 44 sjúkraflutninga í gærkvöldi og í nótt en engan flutning vegna Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert