Segir kerfið mismuna óléttum konum

„Við viljum líka breyta kerfinu. Við erum ekki svona týpur sem bíðum eftir því að stjórnendur hlusti á okkur og breyti allt í einu kerfinu. Við getum bara gert það sjálfar,“ segir Edythe Mangindin, ljósmóðir, doktorsnemi í ljósmóðurfræðum og ein þeirra ljósmæðra sem eru á bak við opnun nýs Fæðingarheimilis Reykjavíkur, í Dag­mál­um, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins. Segir hún heilbrigðiskerfið mismuna óléttum konum af erlendum uppruna á Íslandi en Fæðingarheimili Reykjavíkur sé liður í að breyta því.

Sérstök áhersla verður á þjónustu fyrir konur af erlendum uppruna á fæðingarheimilinu en sjálf er Edythe fædd og uppalin í Bandaríkjunum og upplifði það á eigin skinni á sinni fyrstu meðgöngu að vera ólétt kona af erlendum uppruna á Íslandi sem ekki talaði íslensku.

Edythe segir mikilvægt að fara eftir nýjustu þekkingu hvað varðar barneignarferli kvenna og bendir á að þekkingin gefi til kynna að samfelld þjónusta sé langbest fyrir konur á meðgöngu og í fæðingu og þar af leiðandi verður áhersla á að veita slíka þjónustu á fæðingarheimilinu.

Fæðingarheimili Reykjavíkur hefur þegar opnað fyrir ýmiss konar þjónustu, meðal annars fæðingarfræðslu og heimaþjónustu eftir fæðingu en boðið verður upp á samfellda þjónustu fyrir konur í barneignarferli um leið og fullnægjandi húsnæði finnst að sögn Edythe.

Þáttinn í heild sinni má finna hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert