Málshöfðun vegna uppsagnar trúnaðarmanns

Flugvél Icelandair á Reykjavíkurflugvelli.
Flugvél Icelandair á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair ehf. hefur sagt upp trúnaðarmanni Eflingarfélaga á Reykjavíkurflugvelli, Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, á sama tíma og hún var í viðræðum við fyrirtækið um réttindamál starfsmanna.

Mál verður höfðað bæði fyrir félagsdómi og héraðsdómi vegna uppsagnar Ólafar, segir í tilkynningu frá Eflingu.

Ólöf hefur starfað í hlaðdeild á Reykjavíkurflugvelli síðan 2016 og gegnt hlutverki trúnaðarmanns síðan í mars 2018. Hún var jafnframt öryggistrúnaðarmaður.

„Engin skýring á uppsögninni var veitt í uppsagnarbréfi. Eftir að Ólöfu var tilkynnt munnlega um uppsögnina voru vinnufélagar hennar boðaðir á fund þar sem yfirmenn sökuðu Ólöfu, að henni fjarstaddri, um „alvarlegan trúnaðarbrest í starfi“ sem ekki var skýrður nánar. Engar útskýringar komu fram í viðtali um ástæður uppsagnar á meintum trúnaðarbresti,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að Ólöf njóti trausts og stuðnings vinnufélaga sinna. Þeir hafa undirritað sameiginlega yfirlýsingu henni til stuðnings sem þeir sendu Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair. Þeir hafa hist reglulega til að bregðast við í málinu.

Sólveig Anna Jónsdóttir. formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir. formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Einnig kemur fram að Samtök atvinnulífsins reki málið fyrir hönd Icelandair og að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi stjórnandi hjá Icelandair, hafi lýst yfir stuðningi við uppsögn Ólafar.

Mótmæli send til Icelandair

„Lögmaður og trúnaðarráð Eflingar hafa sent mótmæli til Icelandair og krafist þess að uppsögn Ólafar verði dregin til baka. Ólöf hefur lýst sig reiðubúna til að snúa aftur til starfa og láta málið niður falla verði orðið við þeirri kröfu. Þessari kröfu hefur verið hafnað af bæði Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, og af Halldóri Benjamín Þorbergssyni fyrir hönd SA,“ segir í tilkynningunni.

„Yfirmenn Ólafar halda því fram að þeir hafi ekki haft vitneskju um stöðu Ólafar sem trúnaðarmaður. Sömu yfirmenn ávörpuðu hana þó sem trúnaðarmann í tölvupóstsamskiptum og titluðu hana sem slíka á innri vef fyrirtækisins. Þeir tilkynntu einnig sjálfir skipun hennar sem öryggistrúnaðarmaður til Vinnueftirlitsins,“ segir þar einnig.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Bent er á að Ólöf njóti samkvæmt lögum uppsagnarverndar sem trúnaðarmaður og öryggistrúnaðarmaður. Auk þess sé óheimilt að beita uppsögnum eða hótunum um þær til að refsa launafólki fyrir þátttöku í starfi stéttarfélaga.

„Þetta er í annað sinn á innan við ári sem Icelandair brýtur á félagslegum réttindum starfsfólks með stuðningi Samtaka atvinnulífsins. SA og Icelandair voru aðilar að sérstakri yfirlýsingu ásamt ASÍ og Flugfreyjufélagi Íslands eftir að Icelandair hafði beitt uppsögnum sem vopni í kjaradeilu. Í yfirlýsingunni voru brot Icelandair hörmuð og lýst yfir vilja til að virða réttindi starfsfólks og góða samskiptahætti aðila vinnumarkaðarins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert