Ræddu rýminguna á fundi í Herðubíó

Frá fjarfundi Veðurstofu Íslands í dag.
Frá fjarfundi Veðurstofu Íslands í dag. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Fjöldahjálparstöðin í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði var enn opin í dag á öðrum degi rýminganna vegna skriðuhættunnar á Seyðisfirði. Ekki var mikið um að vera þegar fréttaritara Morgunblaðsins og mbl.is bar að garði, enda flestir hér orðnir sjóaðir í svona ástandi. Brimir Christophsson Buchel sat brosmildur við kaffibarinn og var að bíða eftir mömmu sinni sem hafði fengið heimild til að skjótast heim og sækja föt.

Brimir Christophsson Buchel.
Brimir Christophsson Buchel. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Einhverjir voru svo að kíkja við, fá fréttir, ræða málin og jafnvel fá leiðbeiningar um hvernig mætti ganga til verks til að leysa tilfallandi mál. Á staðnum voru til taks sjálfboðaliði Rauða krossins, tveir fulltrúar frá fjölskyldusviði Múlaþings, fulltrúi sveitarstjóra og lögreglumaður á vakt.

Klukkan fjögur byrjaði síðan fundur fyrir bæjarbúa sem var fjarfundur og fór fram í Herðubíó. Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands, útskýrði þar stuttlega hvernig Veðurstofan fylgist með hreyfingum í fjallinu ofan við bæinn sunnan megin Seyðisfjarðar. Hann sagði síðan frá því hvaða atriði í gagnasöfnun þeirra urðu til þess að lögreglustjórinn á Austurlandi og almannavarnir ákváðu að rýma skyldi níu hús á Seyðisfirði á mánudaginn var. Ennþá mælist gliðnun í innra barmi skriðusársins í fjallinu ofan við bæinn.

Ólafía Stefánsdóttir sjálfboðaliði Rauða krossins, Alla Borgþórsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings, …
Ólafía Stefánsdóttir sjálfboðaliði Rauða krossins, Alla Borgþórsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings, Anna Alexandersdóttir og Helga Þórarinsdóttir starfsmenn á fjölskyldusviði Múlaþings. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Í máli hans kom fram að starfsmenn Veðurstofunnar yfirfara upplýsingar minnst tvisvar á sólarhring auk þess sem margs konar sjálfvirkur búnaður lætur vita ef von er á slæmum tiðindum. Þegar veðurfar og aðrar aðstæður gefa tilefni til er mannlegt eftirlit aukið í samræmi við það. Fundi lauk með fyrirspurnum frá fundargestum þar sem mörgum óvissuatriðum var svarað. Að loknum fundi ræddu fundargestir sín á milli um framkvæmd rýminga og töldu að þar væri margt sem betur mætti gera.

Guðgeir Einarsson lögreglumaður.
Guðgeir Einarsson lögreglumaður. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Til að fá aðeins betri innsýn í aðkomu Veðurstofunnar að vöktun svæðisins var haft samband við Esther Hlíðar Jensen, sérfræðing á sviði landfræðilegra upplýsingakerfa og aurburðarannsókna. Hún sagði að kerfin sem notuð eru til gagnasöfnunar við vöktunina væru að minnsta kosti fimm; radarbylgjuvíxlmyndun sem nýtist í öllum veðrum og við hvaða birtuskilyrði sem er, alstöðvamælingar sem eru þó háðar opinni sjónlínu til þess að geta séð yfir fjörutíu spegla sem eru staðsettir í fjallinu, GPS tæki sem eru á nokkrum stöðum, vatnshæðamælar í borholum og siðan er tilraunaverkefni í gangi með svokallaðan „shape array“ kapal sem hefur verið komið fyrir í 17 metra djúpri borholu.

Mjög fróðleg grein um núverandi aðstæður og aðferðir við vöktun er á vef veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert