Skoða að opna fyrir umferð mjólkurbíls

Óbreytt staða er í Kinn og Útkinn í Suður-Þingeyjarsýslu eftir …
Óbreytt staða er í Kinn og Útkinn í Suður-Þingeyjarsýslu eftir skriðuföll síðustu daga. Rýmingar eru enn í gildi og staðan verður endurmetin á fundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Veðurstofunnar í dag. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hættustig vegna úrkomu og skriðuhættu í Kinn og Útkinn er enn í gildi. Aðgerðarstjórn almannavarna hóf fund kl. 13 í dag þar sem staðan verður endurmetin. Þá er í skoðun hvort opna eigi fyrir umferð mjólkurbíls í gegnum bannsvæðið. Þetta segir Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjórinn á Húsavík, í samtali við mbl.is.

Nú eru mjólkurbændur komnir á damp með bæði aldur á mjólk og hvað þeir geta geymt mikla mjólk hjá sér. Það í skoðun hvort gera eigi einhverjar ráðstafanir í dag eða á morgun svo að mjólkurbíll komist til þess að sækja mjólk. Þá yrði einungis opnuð umferð fyrir mjólkurbílinn undir eftirliti en ekki fyrir aðra umferð. Ákvörðun um það verður líklega tekin í fyrramálið.“

Hann segir engar nýjar breytingar hafa sést á svæðinu undanfarinn sólarhring en að veðrið sé þó miklu betra í dag en það hefur verið síðastliðna daga.

„Það er örlítill úði hér og þar. Við sjáum í fjöllunum að sú úrkoma sem hefur fallið í nótt og í morgun er meiri snjór þannig það er kaldara. Það er að sjatna í lækjum og menn meta það svo að vatnið í þessum fyllum og spýjum sé að rýrna. Þegar björgunarsveitarmenn fóru til gegninga í morgun var ekkert nýtt að sjá, engin ný spýja og engin ný hreyfing á neinu frá því á sama tíma í gærmorgun,“ segir Hreiðar.

Meta hvort þurfi að ráðast í frekari aðgerðir

Einhver úrkoma er þó í kortunum á svæðinu á næstu dögum en erfitt er að svara því hve mikil hún verður, hvort og þá hvernig hún mun breyta stöðunni, segir Hreiðar inntur eftir því.

„Það er eitthvað sem vísindamennirnir verða að svara. Það var alveg búið að gefa í skyn að það yrði einhver úrkoma en þeir voru á því að hún yrði frekar staðbundin nyrst í Flateyjarskaganum. Þar eigi annað hvort snjóa eða rigna meira en það fer eftir því hvað hitastigið verður.“

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýsti yfir óvissustigi á Tröllaskaga, í Kinn og Útkinn á Norðurlandi eystra vegna úrkomu og skriðuhættu á sunnudag. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að rýma eftirtalda bæi í Útkinn: Björg, Ófeigsstaði, Rangá, Engihlíð og Þóroddsstaði. Á fundinum í dag verður metið hvort ráðast þurfi í frekari rýmingu á svæðinu, að sögn Hreiðars.

„Það er búið að safna gríðarlega miklum gögnum svo það kemur eitthvað í ljós núna eftir hádegi hvort það verði farið í að rýma syðra svæðið eða beðið með þetta allt saman. Stóra málið er hvenær hægt verður að slaka á þessu hættumati. Það verða einhverjar ákvarðanir teknar um það í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert