Umfjöllun Mannlífs ekki brot á siðareglum

Blaðamaður og ritstjóri Mannlífs gerðust ekki brotlegir á siðareglum samkvæmt …
Blaðamaður og ritstjóri Mannlífs gerðust ekki brotlegir á siðareglum samkvæmt úrskurði siðanefndar BÍ. AFP

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands segir blaðamann og ritstjóra Mannlífs ekki hafa brotið gegn siðareglum blaðamanna þegar fjallað var um tæplega 20 ára gamalt morðmál í greinaflokkinum Baksýnisspegillinn án þess að nýjar upplýsingar um málið hafi komið fram til að réttlæta umfjöllunina.

Þetta kemur fram í úrskurði siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.

Þann 16. júní síðastliðinn barst kæra á borð siðanefndar þar sem kærandi taldi umfjöllun Mannlífs á sakamáli, þar sem kærandi varð manni til bana í febrúar 2002, meiðandi fyrir hann og fjölskyldu hans. Kærandi taldi blaðamann og ritstjóra miðilsins hafa brotið gegn 1. og 3. gr. siðareglna þar sem að umfjöllunarefni greinarinnar hafi ekki átt erindi við almenning.

Siðareglurnar sem kærandi vísar í kveða meðal annars á um að blaðamaður verði að leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Auk þess verði hann að vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu. Þá verði hann að sýna fyllstu tillitssemi í vandasömum málum.

Telur umfjöllunina óréttlætanlega

Greinin sem um ræðir birtist á vef Mannlífs 1. júní á þessu ári. Segir kærandi umfjöllunina vera endursögn á tæplega 20 ára gamalli frétt og að engin nýleg atvik í málinu hafi átt sér stað til að réttlæta að málið sé nú dregið fram í dagsljósið.

Hafi hann þá átt flekklausan feril frá því að afplánun hans lauk og sé nú menntaður og nýtur þjóðfélagsþegn. Telur hann að réttur blaðamanns til að fjalla um mál hans að tilefnislausu hljóti að víkja fyrir rétti þeirra sem eiga um sárt að binda vegna málsins.

Segja ekkert efnislega rangt við fréttina

Kærðu vísuðu ásökunum á bug og báru fyrir sig að engin efnisleg rangfærsla hefði komið fram í fréttinni. Hafi fréttin þá birst í greinaflokki um sagnfræðilegt efni sem skýri umfjöllun á sakamálinu. Hafna kærðu því að hendur blaðamanna séu bundnar með þessum hætti og að ekki megi fjalla um málið.

Segir í úrskurðinum að í kærunni hafi ekki verið tiltekið hvaða einstöku atriði í umfjölluninni kunni að hafa verið sett fram með ótilhlýðilegum hætti og þannig falið í sér brot gegn siðareglum. Verði því að sýkna hina kærðu blaðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert