Enn hreyfing á fleka hægra megin við Búðará

Frá sl. laugardegi hefur flekinn hreyfst sem nemur um 4,5 …
Frá sl. laugardegi hefur flekinn hreyfst sem nemur um 4,5 cm. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ísólfur

Hreyfing mælist enn á flekanum sem liggur hægra megin við Búðará (sunnan megin) í skriðusárinu frá desember 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

Frá sl. laugardegi hefur hann hreyfst sem nemur um 4,5 cm. Engar aðrar hreyfingar hafa mælst í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar og ekki heldur á flekanum við Stöðvarlæk, norðan skriðusársins.

Rigning er talsverð núna á Seyðisfirði, hefur mælst 20 mm í dag. Hún ætti að ganga að mestu niður rétt fyrir miðnætti í kvöld þegar ætti að vera orðið þurrt að kalla. Ekki er gert ráð fyrir rigningu á morgun en lítilsháttar úrkoma á laugardag. Vel er fylgst með öllum mælum í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar.

Rýming varir fram yfir helgi

Í tilkynningunni kemur fram að Herðubreið verður opin á morgun milli klukkan 14 og 16 og alla daga fram yfir helgi meðan rýming varir. Íbúar í húsum á rýmingarsvæðum eru sérstaklega hvattir til að mæta. 

Vegna úrkomu í dag og óvissu sem henni fylgir, verður ekki í boði fyrir íbúa á rýmingarsvæðum að fara inn í hús sín fram yfir helgi. Þá er öll óviðkomandi umferð um skriðusvæðið óheimil. 

Fulltrúar Rauða krossins, Múlaþings og lögreglu verða í Herðubreið þar sem allir eru velkomnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert