Flekinn hreyfst um 3,5 cm á fimm dögum

Horft út um gluggann á Síldarvinnslunni á tindinn sem gnæfir …
Horft út um gluggann á Síldarvinnslunni á tindinn sem gnæfir yfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hreyfing mælist enn á flekanum sem liggur hægra megin við Búðará (sunnan megin) í skriðusárinu frá desember 2020. Flekinn hefur hreyfst sem nemur rétt um 3,5 cm frá því á laugardag. Engar aðrar hreyfingar hafa mælst í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar og ekki heldur á flekanum við Stöðvarlæk, norðan skriðusársins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. 

Þar segir einnig, að það sé enn úrkomulaust á Seyðisfirði en gert sé ráð fyrir að rigna taki upp úr hádegi í dag og þá talsvert. Úrkoman ætti að ganga að mestu niður í nótt. Ekki er gert ráð fyrir rigningu á morgun, föstudag. Vel er fylgst með öllum mælum í hlíðinni.

Rýming mun vara fram yfir helgi

Bent er á, að Herðubreið verði opin milli klukkan 14 og 16 í dag og alla daga fram yfir helgi á meðan rýming varir. Íbúar í húsum á rýmingarsvæðum eru sérstaklega hvattir til að mæta. Þeir munu þá fá aðstoð við að fara og huga að húsum sínum hafi þeir hug á því. Fulltrúar Rauða krossins, Múlaþings og lögreglu verða í Herðubreið. Öll velkomin. Minnt er á hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717.

Þó er tekið fram að vegna þeirrar rigningar sem spáð er eftir hádegi á Seyðisfirði verður ekki í boði fyrir íbúa á rýmingarsvæðum að fara inn í húsin sín í dag.

Á vef Veðurstofu Íslands er hægt að skoða staðsetningu flekans meðal annars og hreyfingar á speglum, auk þess sem þar má fá ítarlegri upplýsingar um stöðu mála.  

Einnig er á Veðurstofu Íslands tilkynningarborði þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um vöktun og fleira („Viðvörun Hættustig almannavarna á Seyðisfirði, vegna hættu á skriðuföllum“).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert