„Núna er allt í syngjandi sveiflu“

Mikill skortur er á nemendum í framreiðslu og matreiðslu.
Mikill skortur er á nemendum í framreiðslu og matreiðslu. mbl.is/Golli

Verulegur vöxtur hefur verið á veitingaþjónustu að undanförnu og er mjög mikil eftirspurn meðal veitingahúsa eftir því að fá nema á námssamninga í framreiðslu og matreiðslu um þessar mundir.

Baldur Sæmundsson, áfangastjóri Hótel- og matvælaskólans við Menntaskólann í Kópavogi, segir í samtali við Morgunblaðið að eftir að ákveðið bakslag varð í kórónuveirufaraldrinum sé nú komin upp alveg ný staða eftir að höftum var aflétt og mikil eftirspurn eftir nemum hjá veitingahúsunum.

„Núna er allt í syngjandi sveiflu. Við erum búin að heyra í nokkuð mörgum og einn sagði við mig: Það er ekkert rautt Ísland, hér er brjálað að gera og við sjáum ekki út úr verkefnum,“ segir Baldur.

Gætu auðveldlega fengið pláss

„Ég get nánast fullyrt að þeir nemendur sem misstu samninginn sinn vegna Covid og vilja vinna áfram fengju samningspláss aftur, ef ekki á sama stað þá fengju þeir pláss annars staðar,“ segir hann. Baldur segir að skólinn sé í miklu samstarfi við atvinnulífið vegna nemenda við skólann sem séu allir á samningum og þurfi því ekki að leita að störfum þegar þeir eru komnir af stað í náminu. Hann birti nýverið grein á vefnum veitingageirinn.is þar sem hann hvetur þá sem vilja komast á námssamning í framreiðslu og matreiðslu að hafa samband við skólann.

„Mikill skortur er á nemendum í framreiðslu og matreiðslu og hefur um langan tíma ekki verið meiri eftirspurn eftir nemendum í greinarnar. Er svo komið að margir veitingastaðir hafa sett sig í samband við áfangastjóra Hótel- og matvælaskólans og óskað eftir aðstoð við að útvega nemendur á samninga í greinunum. Þetta er nokkuð breytt staða og ástæða til að benda ungu fólki á möguleika þá sem þessi störf bjóða,“ segir hann í greininni.

Við upphaf faraldursins var nokkuð um uppsagnir námssamninga hjá nemendum og brást Hótel- og veitingaskólinn við með því að taka á móti fleiri nemendum sem sóttu um nám á haustönn í fyrra og á vorönn á þessu ári. Nú er staðan gjörbreytt eins og fyrr segir og margvíslegir möguleikar á að aðstoða þá sem vilja við að útvega samninga í greinunum, að sögn Baldurs. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert