Veittist að leigubílstjóra með úðavopni

Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. 

Um klukkan hálfþrjú í nótt barst lögreglu tilkynning um mann sem hafði veist að leigubílstjóra með úðavopni í Laugardalnum. Viðkomandi var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. 

Klukkan sex í gærkvöldi stöðvaði lögreglan ökumann bifreiðar sem hafði ítrekað hunsað fyrirmæli um að stöðva aksturinn. Manninum var veitt stutt eftirför í miðbænum en hann var handtekinn og færður á lögreglustöð í kjölfarið. Maðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og var hann vistaður í fangageymslu. 

Aðeins kortéri síðar fékk lögreglan tilkynningu um einstakling sem gerði tilraun til þess að taka eigur starfsfólks verslunar í miðbænum ófrjálsri hendi. Viðkomandi losaði sig við munina þegar hann varð var við starfsfólkið og var farinn af svæðinu þegar lögreglan mætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert