Icelandair segist hafa farið að lögum

Ólöf starfaði á Reykjavíkurflugvelli.
Ólöf starfaði á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Upplýsingafulltrúi Icelandair segir félagið fara að lögum og kjarasamningum og það eigi einnig við um lög sem kveða á um vernd trúnaðarmanna starfsmanna. Icelandair sagði nýverið upp hlaðkonunni Ólöfu Helgu Adolfsdóttur. Bæði Ólöf og stéttarfélagið Efling segja að hún hafi verið trúnaðarmaður á þeim tíma sem henni var sagt upp. Þá hefur Vinnueftirlitið staðfest að Ólöf hafi verið skráður öryggistrúnaðarmaður á þeim tíma.

mbl.is sendi Icelandair skriflega fyrirspurn vegna uppsagnar Ólafar. 

„Eðli málsins samkvæmt ræðir Icelandair ekki málefni einstakra starfsmanna opinberlega eða við aðra óviðkomandi. Uppsagnir eru alltaf erfiðar ákvarðanir sem teknar eru að vandlega athuguðu máli,“ segir í svari frá Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair. 

„Félagið fer að lögum og kjarasamningum og á það einnig við um lög sem kveða á um vernd trúnaðarmanna starfsmanna. Eins og fram hefur komið er félagið ósammála fullyrðingum Eflingar í umræddu máli.“

Í viðtali við mbl.is í vikunni sagði Ólöf að hún hafi verið kos­in trúnaðarmaður í mars­mánuði árið 2018 og hafði sinnt því hlut­verki þar til henni var sagt upp. Þá var hún kos­in ör­ygg­is­trúnaðarmaður í sept­em­ber árið 2020. Eins og áður sagði hefur Vinnueftirlitið staðfest það. 

Þá sagðist Ólöf sömuleiðis hafa verið að vinna að verkefni sem tengdist kjaramálum starfsfólks þegar henni var sagt upp. 

Óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vegna starfa þeirra sem trúnaðarmenn

Trúnaðarmenn stéttarfélaga njóta mjög ríkrar uppsagnarverndar skv. 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.

Atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess, að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Nú þarf atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum, og skal þá trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni,“ segir í lögunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert