Fái fangelsisdóm og greiði milljón í miskabætur

Jón Baldvin Hannibalsson ásamt verjanda sínum, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, í …
Jón Baldvin Hannibalsson ásamt verjanda sínum, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Dröfn Kærnested, sækjandi í máli Carmenar Jóhannesdóttur gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, fór fram á það í málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að honum verði gert að sæta fangelsi í tvo til þrjá mánuði, skilorðsbundið.

Hún sagði sönnun vera komna fram um brot Jóns Baldvins gegn 199. grein almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni. Hún sagði Jón vera með hreint sakarvottorð en að hann hafi gengist undir sátt árið 2019 fyrir ölvunarakstur og brot á lögreglulögum.

Hún sagði Jón Baldvin hafa breytt framburði sínum í nokkrum atriðum frá því hann fór í skýrslutöku hjá lögreglunni í málinu. Sagði hún framburð brotaþola trúverðugan en framburð ákærða Jóns Baldvins ótrúverðugan og ekki í samræmi við framburði annarra.

Dröfn Kærnested.
Dröfn Kærnested. mbl.is/Árni Sæberg

Í yfirburðastöðu

Skipaður réttargæslumaður Carmenar fór fram á að hann verði dæmdur til að greiða miskabætur upp á eina milljón króna, auk vaxta.

Réttargæslumaðurinn sagði brot hafa verið framið af mun eldri manni gegn yngri konu og að hann hafi verið í mikilli yfirburðastöðu sem gestgjafi Carmenar og móður hennar Laufeyjar. Hann sagði brotaþola hafa viljað skila af sér skömminni, enda hafi hún ekkert gert rangt. Jón Baldvin hefði ekki hótað því að lögsækja þær mæðgur hefði hann ekki vitað að hann hefði brotið af sér.

Réttargæslumaðurinn minntist einnig á stöðu ákærða í samfélaginu og umræðunnar í fjölmiðlum um málið. Hann sé stanslaust fyrir augum brotaþola og miski brotaþola sé því jafnvel meiri en annarra í sambærilegum tilvikum.

Engin rannsókn á vettvangi

Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Jóns Baldvins, krafðist þess að hann verði sýknaður. Hann sagði innbyrðis ósamræmi vera í framburði vitna og hafnaði atburðarásinni eins og hún hafi verið lögð fram. Hann gagnrýndi að kæra hafi verið lögð fram í málinu um 8 mánuðum eftir meint brot og að hún hafi verið lögð fram á Íslandi en ekki Spáni. Hann sagði jafnframt enga rannsókn hafa átt sér stað á vettvangi. „Það er engin raunveruleg rannsókn sem fer fram,“ sagði hann. 

Hann sagði Jón Baldvin og Bryndísi Schram, eiginkonu hans, hafa verið með óskerta sjónlínu að meintu atviki en ekki Laufeyju Arnórsdóttur, móður Carmenar. 

Jón Baldvin Hannibalsson í héraðsdómi í morgun.
Jón Baldvin Hannibalsson í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert