Ábyrgðin er þeirra sem ákveða að viðhalda ástandinu

Fagráð í bráðahjúkrun segir ljóst að stjórnvöld verði að grípa …
Fagráð í bráðahjúkrun segir ljóst að stjórnvöld verði að grípa inn í. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fagráð í bráðahjúkrun krefst þess að sjúklingar sem þurfa á innlögn á Landspítala að halda dvelji ekki lengur en 6 klukkustundir á bráðamóttöku og að þeim tíma liðnum komist þeir á legudeildir í viðeigandi sérhæfða þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Þetta kemur fram í áskorun fagráðsins sem send var í dag á framkvæmdastjórn Landspítala og heilbrigðisráðuneytið. 

Í áskoruninni er tekið undir yfirlýsingu hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku frá því í gær þar sem fram kom að hættuástand ríki á bráðamóttöku Landspítalans og hjúkrunarfræðingar óttist að gera mistök við slíkt ástand, sem geti haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir sjúklinga.

Fagráðið segir nauðsynlegt að opna fleiri legurými á Landspítala, auk viðbótarúrræða við hjúkrun og þjónustu í samfélaginu og heimahúsum og að fleiri hjúkrunarrými verði opnuð eins og lofað hefur verið. 

„Til þess að þetta geti orðið er ljóst að stjórnvöld verða að grípa inn í, meta hjúkrunarstörf að verðleikum og gera starfsumhverfi við hjúkrun viðunandi. Við krefjumst þess að öryggi og réttarstaða starfsfólks verði tryggt þegar öryggi sjúklinga er ógnað. Ábyrgðin er þeirra sem ákveða að viðhalda þessu langvarandi ástandi á Landspítala og í heilbrigðiskerfinu með því að bregðast ekki við ákalli fagfólksins.“

Sama vandamál til staðar árið 2016

Í áskorun fagráðsins er vísað í fyrri ályktanir og yfirlýsingar frá árunum 2016 og 2019 þegar sama vandamál var þegar til staðar. Ástandið hefur þó versnað, miðað við tölulegar upplýsingar í fyrri yfirlýsingum og áskoruninni nú.

„Rúmstæði bráðamóttöku eru nú að jafnaði upptekin af 20 og upp í 44 sjúklingum sem búið er að taka ákvörðum um að þurfi að leggjast inn á spítalann. Þessir sjúklingar ættu að vera farnir á legudeild en einungis 24-28% ná því innan 6 klukkustunda markmiðs sem Landspítali hefur sett. Þessi fjöldi innlagðra sjúklinga á bráðamóttöku jafnast á við 1 til 3 legudeildir á Landspítala.“ 

Það kemur í hlut hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á bráðamóttöku að sinna stöðugu eftirliti og þörfum þessara sjúklinga, bregðast við bráðum uppákomum auk þess að taka á móti þeim 180 sjúklingum sem leita til bráðamóttöku á hverjum sólarhring. 

„Álagið er því margfalt. Einnig er aðstaðan og aðbúnaðurinn óviðunandi hvað varðar sýkingavarnir, persónuvernd, salernisaðstöðu og umhverfisáreiti. Við þessar aðstæður er öryggi sjúklinga ógnað, starfsfólk er hrætt við að gera mistök sem leitt geti til saksóknar, fagmennska og sérhæfing bráðahjúkrunarfræðinga líður fyrir og hjúkrunarfræðingar íhuga að hverfa frá störfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert