Nýr forstjóri segir stöðu á bráðadeild óviðunandi

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala. Ljósmynd/Aðsend

Settur forstjóri Landspítala, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, segir að mönnunarvandi spítalans sé allra stærsti steinninn í götu stofnunarinnar.

Guðlaug segir að hún vilji að friður ríki um starfsemi spítalans, sem á undanförnum misserum hefur gengið í gegnum orrahríð, eins og hún orðar það sjálf.

Hún segist í samtali við mbl.is taka heilshugar undir þær áhyggjur sem hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku hafa viðrað. Í fréttatilkynningu frá starfsmönnum deildarinnar í gær var sagt að hættuástand ríkti á bráðamóttökunni. 

„Ég deili áhyggjum starfsfólks bráðamóttökunnar algjörlega. Þessi staða er algjörlega óviðunandi,“ segir Guðlaug og bætir við: 

„Ég held, aftur á móti, að við þurfum virkilega að taka þetta samtal um það hvað getum við gert hér innanhúss til þess að draga úr líkum á því að þetta ástand endurtaki sig sí og æ. Það hefur margt verið gert en það sýður upp úr allt of oft.“

Guðlaug segist hafa fundað með framkvæmdastjórn og forstöðumönnum spítalans í morgun til þess að ræða hvað sé hægt að gera strax til þess að ráða bót á þessum vanda. Hún segir að aukið flæði sjúklinga af bráðamóttöku hafi verið lykilatriði í þeim samræðum. 

Ánægð með störf Páls

Guðlaug er settur forstjóri Landspítala, eins og fyrr segir, enda sagði Páll Matthíasson starfinu lausu fyrir skemmstu. Guðlaug er skipuð til áramóta og segist ekki hafa ákveðið hvort hún muni sækja um starf forstjóra þegar það verður auglýst að þeim tíma liðnum. 

Páll Matthíasson, fyrrverandi forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, fyrrverandi forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

„Ég sé það þannig að rekstur spítalans hafi verið í mjög góðum höndum hjá Páli, bara virkilega, en verkefnin hafa mörg hver verið mjög flókin. Það hefur mjög margt gerst á þessum átta árum sem Páll var við stjórnvölinn hér,“ segir Guðlaug og bætir við:

„En eins og þú sagðir áðan þá erum við að komast út úr þessu kófi, við erum að komast út úr Covid. Það hefur látið á sjá, svo það sé bara sagt, fólk hefur ekki komist í frí og fólk verður þreytt og þar af leiðandi verður þröskuldurinn lægri fyrir ákveðinni óþolinmæði, ef við getum orðað það þannig. Það er bara mjög skiljanlegt.“ 

Vill tengjast „grasrót spítalans“

Guðlaug hóf starf á Landspítala árið 1986 þegar hún lauk námi í hjúkrunarfræði. Síðan þá hefur hún unnið í 10 ár á hjartadeild spítalans, gegnt ýmsum stjórnunarstörfum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og síðan Landspítala, unnið sem forstjóri hjúkrunar á St. Jósefs-spítala í Hafnarfirði o.fl. 

„Þannig ég hef verið viðloðandi heilbrigðiskerfið bara alla tíð,“ segir Guðlaug. 

Hún segist þekkja Landspítala vel og segir mikilvægt að starfsfólk viti að það þurfi allir að snúa bökum saman. Til þess að skapa frið um störf spítalans, eins og Guðlaug hefur sagst vilja gera, segir hún að það sé lykilatriði að komast í gott og náið samband við grasrót stofnunarinnar. 

„Ég er alveg með það á hreinu að starfsmenn Landspítalans, þeir fara í vinnuna og á fætur á morgnana til þess að gera það sem þeir menntuðu og réðu sig til og það er að sinna sjúklingum. Ég er alveg með það á hreinu og ég vil að við sköpum umgjörð til þess að það sé hægt,“ segir Guðlaug.  

Draumaráðherra heilbrigðismála

Guðlaug tekur við starfi forstjóra Landspítala á tímamótum. Átta ára stjórnartíð Páls Matthíassonar lýkur á einu augabragði og fyrr en talið var og á meðan Guðlaug fótar sig í nýju starfi sitja formenn ríkisstjórnarflokka og reyna að mynda nýja stjórn. 

Spurð að því hvort hún eigi sér óskaráðherra heilbrigðismála segir Guðlaug:

„Mér finnst ég ekki geta svarað þessu. En draumaráðherrann er ráðherra sem hægt er að eiga gott samstarf við og ég trúi því að þeir sem sækjast eftir því að verða ráðherrar og skipa slíkar stöður fari með því hugarfari að gera gott betra, og það verður náttúrlega besti ráðherrann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert