Langtímalausnir krefjast aðkomu stjórnvalda

„Það vantar sérstaklega hjúkrunarfræðingar og sjúkraliða og það hefur verið …
„Það vantar sérstaklega hjúkrunarfræðingar og sjúkraliða og það hefur verið áskorun hjá okkur að fá þá til starfa. Það er ekki nægilegt framboð af heilbrigðisstarfsfólki á landinu til þess að standa undir þeirri þjónustu sem við veitum.“ Eggert Jóhannesson

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, ásamt öðrum stjórnendum spítalans funduðu í dag með stjórnendum og hjúkrunarfræðingum bráðamóttökunnar vegna þess ástands sem þar er nú uppi.

„Þetta var bæði upplýsingafundur um það sem er verið að gera og svo samtal um það hvaða lausnir séu mögulegar í stöðunni sem er þröng.“

„Við höfum í mörg ár og erum alltaf að leita nýrra leiða til þess að geta tekið við sjúklingum og við erum búin að gera miklar breytingar á okkar starfsemi til þess að geta tekið á móti fleiri sjúklingum og sinnt þeim,“ segir Sigríður í samtali við blaðamann mbl.is.

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.

Álagið fer stöðugt vaxandi

Hún segir þó vandann vera sá að álag á Landspítalann bætist stöðugt þar sem spítalinn taki við fleiri sjúklingum og sjúklingar séu nú með flóknari þjónustuþarfir.

„Það má segja að allt sem við gerum innanhús hjá okkur geti leyst málin tímabundið en þau ná ekki að leysa vandann til lengri tíma. Við erum núna með áætlanir um það að fjölga legurýmum á næstu vikum og mánuðum og það er heilmikið verkefni vegna þess það þarf að ráða fólk til þess að vinna á þeim deildum.“

„Það vantar sérstaklega hjúkrunarfræðingar og sjúkraliða og það hefur verið áskorun hjá okkur að fá þá til starfa. Það er ekki nægilegt framboð af heilbrigðisstarfsfólki á landinu til þess að standa undir þeirri þjónustu sem við veitum.“

Aðkoma stjórnvalda nauðsynleg

Sigríður segir þau leita leiða til þess að þétta samstarfið og séu að nýta öll þau úrræði sem þau hafa en það þurfi að horfa til langtíma lausna.

„Langtíma lausnin er annars vegar að byggja upp úrræði fyrir aldraða utan spítalans og þeim fer fjölgandi sem þurfa á þeim úrræðum að halda og hinsvegar þarf að tryggja það að við séum að mennta nægilegan fjölda af heilbrigðisstarfsfólki til þess að manna þessa þjónustu til framtíðar og við erum ekki að mennta nægilega marga í dag.“

Hún bætir við að einnig sé mikilvægt að tryggja aðbúnað og kjör sem eru samkeppnishæf svo heilbrigðisstarfsfólk vilji vinna á spítalanum.

„Þetta er allt hlutir sem krefjast aðkomu stjórnvalda og eru ekki á okkar valdi en við höfum verið mjög skýr með að sé langtímalausnin.“

Landspítalinn flöskuhálsinn

Sigríður segir að þó það sé skortur á hjúkrunarfræðingum sé mikil aðsókn í hjúkrunarfræðinám.

„Það er komið á það stig að Landspítalinn er flöskuhálsinn, af því að allir nemendur koma í einhvern hluta af sínu klíníska námi til okkar og til þess að við getum tekið við fleiri nemendum þurfum við að styrkja ákveðna innviði hjá okkur, styðja enn frekar við þetta menntahlutverk og við þurfum aðstoð stjórnvalda til þess.“

Sigríður teiknar upp svarta mynd af ástandinu á spítalanum, allar deildir séu yfirfullar og þess vegna safnast sjúklingar upp á bráðamóttökunni.

„Það sem við höfum verið að sjá undanfarið að það eru þungir sjúklingar að koma inn á bráðamóttöku og hærra hlutfall þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Það hefur keðjuverkandi áhrif þannig það eru þyngri sjúklingar inni á legudeildum og það er þróunin sem við höfum verið að sjá síðustu ár. Það er þetta álag sem fólk er að lýsa, bæði fjöldinn og flóknar þjónustuþarfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert