Vindi ofan af „löngu úreltum hugmyndum“

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, forseti ASÍ, fagnar ákvörðuninni um að veita þremur hagfræðingum Nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir sem sýna fram á að hækkun lágmarkslauna leiðir ekki sjálfkrafa til færri starfa.

„Kenningar meginstraumshagfræðinnar hafa byggt á þeirri hugmynd að betrumbætur á stöðu láglaunafólks og þeirra sem þurfa á tryggingakerfum að halda muni koma í bakið á þessum sömu hópum og hafa slæmar afleiðingar fyrir hagkerfið í heild sinni. Rannsóknir þremenninganna sýna fram á að svo er ekki og hafa þær nú hlotið æðstu viðurkenningu hagfræðinnar,“ skrifar Drífa í vikulegum pistli sínum. 

Hún vonar að ákvörðun nóbelsakademíunnar eigi þátt í að vinda ofan af „löngu úreltum hugmyndum“ um að halda niðri launum, enda hafi þær reynst skaðlegar um allan heim og kostað milljónir lífsviðurværið.

Hún minnist á „kunnugleg viðvörunarorð“ úr Seðlabankanum þar sem varað hafi verið við launahækkunum.

„Hins vegar mælist engin sérstök launadrifin verðbólga, heldur er verðbólga há sökum þess að húsnæðisverð hefur fengið að hækka í hæstu hæðir og of seint hefur verið brugðist við þróuninni,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert