Stendur við ummæli sín um hræðsluáróður

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.
Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi. Ljósmynd/Aðsend

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir íslenskt samfélag vera komið á skrítinn stað þegar færa þurfi sérstök rök fyrir því að fólk lifi eðlilegu lífi. Hún segir umræðuna mikilvæga en stendur við fyrri ummæli sín.

„Ég ítreka ummælin sem ég lét falla í síðustu viku. Þau beinast auðvitað ekki að persónu Þórólfs, heldur embætti sóttvarnalæknis, og öðrum þeim sem hafa ítrekað talið til nýjar og nýjar ástæður til að viðhafa þessar takmarkanir sem við höfum lifað við í marga mánuði,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Nýjar og nýjar ástæður til frelsisskerðingar

„Okkur var sagt að þegar að bóluefnin kæmu og bólusetningarþátttaka hefði orðið góð þá myndi fólk endurheimta frelsi sitt aftur. Nú þegar þátttaka fullorðinna hefur náð 90% á svo sífellt að finna nýjar ástæður til að halda aftur af frelsi fólks.

Á sumarmánuðum urðu jarðhræringar skyndileg ástæða takmarkana, nú á dögunum var það RS vírusinn og inflúensan sem er eitthvað sem við lifum við árlega og hefur aldrei verið talin sérstök ástæða til að takmarka frelsi fólks. Svona umræða er til þess fallin að vekja hræðslu og ótta hjá ótal mörgum og að tilefnislausu,“ segir Hildur. 

Mikilvæg umræða

Hildur kveðst finna mikinn meðbyr en segir ískyggilegt hversu fólk  fljótt að venjast því að lifa takmörkuðu lífi og segist telja að margir opni ekki augun fyrr en þeir heyra umræðuna. 

„Ég finn mikinn meðbyr þessum sjónarmiðum. Mér finnst kannski verst að upplifa hversu margir eru á sömu skoðun en hafa ekki þorað að segja neitt. Fólk verður að geta skipst á skoðunum um réttmæti þess að ganga á frelsi fólks og hvort þær takmarkanir sem við lifum við séu réttmætar – það er mikilvæg umræða og við verðum að geta tekið hana.

Mér finnst við hafa náð sérkennilegum stað sem samfélag, þegar færa þarf sérstök rök fyrir því að hér lifi fólk eðlilegu lífi. Það er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi að skiptast á sjónarmiðum um réttmæti þess að ganga á mannréttindi fólks. Ekki síst þegar lagt er á ráðin með áframhaldandi takmarkanir sem ekki má greina neinn ávinning af, aðeins tilkostnað og fórnir.“

„Stórhættulegt að vera lifandi“

Hildur segir sóttvarnalækni hafa haft takmarkalausan aðgang að fjölmiðlum og almenningi um margra mánaða skeið og því fylgi ábyrgðarhluti.

„Það er ábyrgðarhluti að vekja ekki meiri ótta hjá almenningi en tilefni er til. Þegar árlegur faraldur RS-víruss og inflúensu á að vera skyndilegt tilefni frelsisskerðinga, og vekja hjá fólki ótta, sem ekki hefur vaknað fyrr við sama tilefni, finnst mér eðlilegt að túlka slíkt sem hræðsluáróður. Jafnvel þó slíkt hafi hugsanlega ekki verið með vilja gert.

Þegar fólk er daglega áminnt um yfirvofandi hættu með reglulega uppfærðum smittölum skynjar það hugsanlega meiri ógn en ástæða er til. Hætturnar eru allt um kring og þær algengustu fáum við sjaldnast fréttir af. Það er nefnilega stórhættulegt að vera lifandi.“

Þá bætir Hildur við að ekki eigi að setja takmarkanir á líf almennings vegna stöðu heilbrigðiskerfisins.

„Svo er auðvitað talað um heilbrigðiskerfið. Íslendingar hafa aðlagað sig og líf sitt að heilbrigðiskerfinu á síðustu mánuðum en nú þarf heilbrigðiskerfið  að aðlaga sig að fólkinu í landinu. Þá beini ég ekki spjótum að fólkinu sem hefur annast sjúklinga af miklum dugnaði síðustu mánuði, heldur kerfinu sjálfu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert