Hrækti að börnum og á lögreglumann

Ölvaður maður var handtekinn í Laugardalnum um hálfáttaleytið í gærkvöldi.

Tilkynning hafði borist lögreglunni um að hann hafi áreitt börn og hrækt að þeim. Maðurinn vildi ekki gefa lögreglunni upp nafn og kennitölu og hrækti á lögreglumann.

Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands og fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglunnar, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sagði fjóra hafa ráðist á sig

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur. Maður sagði fjóra hafa ráðist á sig og meðal annars sparkað í höfuð sitt en hann náð að hlaupa frá þeim. Maðurinn var í miklu uppnámi og með rispur á olnboga og mjöðm. Málið er í rannsókn.

Útafakstur á Bláfjallavegi

Um hálftólfleytið var tilkynnt um útafakstur á Bláfjallavegi í Kópavogi. Ökumaðurinn fipaðist er hann var að aka fram úr bifreið og voru tveir farþegar í bifreið hans. Ökumaðurinn fann til eymsla í hendi og var a.m.k. annar farþeginn með verki í baki, höfð og olnboga. 

Þeir sem slösuðust voru fluttir með sjúkrabílum á bráðadeild til aðhlynningar. 

Ökumaðurinn og annar farþeginn eru aðeins 17 ára og var málið kynnt foreldrum þeirra og tilkynning send til barnaverndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert