Segja að kjörklefinn hafi uppfyllt skilyrði

Yfirkjörstjórn telur að kjörklefar hafi uppfyllt skilyrði um leynilega atkvæðagreiðslu.
Yfirkjörstjórn telur að kjörklefar hafi uppfyllt skilyrði um leynilega atkvæðagreiðslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirkjörstjórn í Reykjavíkurkjördæmi suður telur að ekki hafi verið brotið á réttindum fatlaðs kjósanda í síðustu Alþingiskosningum þar sem tjald var ekki fyrir kjörklefa hans. Telur stjórnin að klefinn hafi uppfyllt skilyrði um leynilega atkvæðagreiðslu og því sé ekki tilefni til að ógilda kosninguna.

Þetta kom fram í svari yfirkjörstjórnar við kæru sem barst frá kjósanda í kjördæminu.

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, kjósandi í Reykjavíkurkjördæmi suður, lagði fram kæru til ógildingar kosninganna á þeim grundvelli að hann upplifði ekki að kosningarnar væru leynilegar. Rúnar notar hjólastól og þurfti að nýta sér þar til gerðan kjörklefa þegar hann kaus í síðustu alþingiskosningum þann 25. september. 

Rúnar upplifði mikil óþægindi við atkvæðagreiðsluna og taldi hann aðstæðurnar í kjörklefanum ekki uppfylla skilyrði um leynilega atkvæðagreiðslu þar sem ekki hafi verið tjald fyrir. Hafi þá einstaklingur labbað fram hjá klefa hans, einungis einum til tveimur metrum frá honum, sem gæti hafa séð á kjörseðil hans. Kvaðst Rúnar þá einnig hafa geta séð kjósendur sem stóðu í biðröð við kjördeildina.

Segja að kjörklefarnir hafi uppfyllt skilyrðin

Yfirkjörstjórnin telur að kjörklefar sem notaðir voru í síðustu alþingiskosningum hafi uppfyllt þau skilyrði sem á mælt er fyrir um í 69 gr. laga nr. 24/2000 þar sem kveðið er á um að kjörklefi skuli þannig búinn að hægt sér að greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi kýs.

Í svari yfirkjörstjórnar er aðstæðunum á kjörstað lýst. Þar kemur fram að þó að klefar fyrir kjósendur í hjólastól hafi ekki verið með tjöldum, hafi þeir snúið 90 gráður á hina kjörklefana, með vegg fyrir aftan, svo ekki hafi verið unnt að labba þar framhjá.

Ljósmynd sem sýnir aðstæður á kjörstað áður en tjöld voru …
Ljósmynd sem sýnir aðstæður á kjörstað áður en tjöld voru sett upp í kjörklefunum til vinstri og fyrir miðju. Lengst til hægri má sjá kjörklefann sem ætlaður er fólki í hjólastól en hann snýr 90 gráður á hina klefana. Tjald fór ekki upp þar. Ljósmynd/Yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður

Voru borðin staðsett ská í horni klefans en ekki gegnt inngangi eins og í öðrum kjörklefum þar sem tjöld eru fyrir. Hafi atkvæðagreiðslan því ekki verið sýnileg þó að tjald hafi ekki verið fyrir. Þá er tekið fram að tjaldið hafi ekki verið sett upp í ljósi þess að það geti flækst í hjólastólum og valdið óþægindum.

Ekki mælt fyrir um tjald í lögum

 „Lagaákvæðið [mælir] ekki fyrir um að tjald skuli vera fyrir kjörklefa og málefnalegar ástæður voru fyrir því að notast ekki við slíkt tjald í kjörklefa sem ætlaður er einstaklingum sem þurfa á hjólastól að halda til að komast leiðar sinnar. Að mati yfirkjörstjórnar gátu allir kjósendur gætt leyndar um atkvæðagreiðslu sína,“ segir í svarinu.

Að því sögðu telur yfirkjörstjórn sig ekki geta tekið afstöðu til þess hvort að einstaklingur hafi gengið framhjá kjörklefanum þegar kærandi kaus, líkt og hann hefur haldið fram. Né getur stjórnin sagt til um hvort að sá einstaklingur hafi getað séð á kjörseðil Rúnars.

„Yfirkjörstjórn telur sig hins vegar ekki að með fyrirkomulagi kjörklefa hafi fötluðum einstaklingum á Íslandi verið kerfisbundið mismunað sem þjóðfélagshópi eins og það er orðað í kæru né að fyrirkomulagið gefi tilefni til þess að ógilda í heild sinni niðurstöður Alþingiskosninganna þann 25. september sl.,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert