Nauðgunardómur þyngdur um eitt ár

mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur þyngt dóm yfir karlmanni sem var sakfelldur fyrir nauðgun í héraði í nóvember í fyrra. Maðurinn var þá í Héraðsdómi Norðurlands eystra dæmdur í tveggja ára fangelsi en Landsréttur hefur þyngt dóminn um eitt ár. 

Maðurinn var sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa í september 2018 beitt konu ofbeldi og ólögmætri nauðung án hennar samþykkis.

Í dómi Landréttar kom fram að ekki væri unnt að líta svo á að samþykki sem konan veitti manninum til að hafa samfarir við hana hefði tekið til hvers kyns kynferðisathafna af hans hálfu. Manninum hefði hlotið að vera ljóst að samþykki konunnar hefði þurft fyrir þeim ofbeldisfullukynferðislegu athöfnum sem hann viðhafði gagnvart henni og að hann hefði með engu móti getað litið svo á að það lægi fyrir.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn hefði hreinan sakarferil og að hann hefði frá upphafi skýrt afdráttarlaust frá málavöxtum.

Á hinn bóginn hefðu athafnir hans verið grófar, valdið margvíslegum áverkum á konunni og haft alvarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu hennar.

Var refsing mannsins því ákveðin fangelsi í þrjú ár auk þess sem honum var gert að greiða konunni tvær milljónir kr. í miskabætur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert