Hús við Skipholt verði hækkað

Áberandi bygging sem stendur á horni Skipholts og Nóatúns.
Áberandi bygging sem stendur á horni Skipholts og Nóatúns. mbl.is/Sigtryggur Sigtryggsson

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk um leyfi til að byggja ofan á húsið Skipholt 21, sem stendur á horni Skipholts og Nóatúns. Hins vegar var ekki fallist á jafn mikla hækkun hússins og óskað var eftir. Bent hefur verið á að hornbyggingin á lóð nr. 21 við Skipholt bæri sterkan karakter eftirstríðsmódernisma og sé sem slík áberandi kennileiti á svæðinu. Vanda þurfti til verka við hverskyns útfærslu á stækkun hússins, svo sem við yfirborðsfrágang útveggja, glugga og gerð nýrra svala.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Gert ráð fyrir þéttingu

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir svæðið Holt-Laugavegur er gert ráð fyrir að þar verði fyrst og fremst rýmisfrekar smásöluverslanir, skrifstofur, stofnanir, ýmis ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki, hönnunarfyrirtæki og handverk, hótel og veitingastaðir.

Þar sem aðstæður leyfa er íbúðarhúsnæði heimilt, einkum á efri hæðum bygginga. Gert er ráð fyrir allnokkurri þéttingu byggðar á svæðinu, ekki í síst í því skyni að skapa heildstæðari götumyndir. Á undanförnum árum hefur átt sér stað umtalsverð þétting íbúðabyggðar á þessu svæði.

Í umsókn Arkþing-Nordic ehf. arkitekta um breytingu á deiliskipulagi segir að Skipholt 21 sé vel staðsett með tilliti til almenningssamgangna við samgöngu- og þróunarás, lóðin sé innan 200 metra jaðarmarka frá Borgarlínu og í um 500 metra fjarlægð frá kjarnastöð við Hlemm. Aukið byggingarmagn, fjölgun íbúða í bland við verslun og þjónustu á jarðhæð, þakgarðar, bætt ásýnd byggingarinnar og fækkun bílastæða muni styðja við lifandi mannlíf í borginni.

Í breytingunni felist að heimilt verður að byggja ofan á húsið þannig að það verði 4-5 hæðir og sex hæðir á horni byggingar. Gert verði ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum og íbúðum á efri hæðum, sem voru áður atvinnuhúsnæði. Byggingarreitur jarðhæðar stækki, heimilt verði að vera með sameiginlega þakgarða, bílastæðum á lóð fækki og fjöldi hjólastæða verði í samræmi við reglur borgarinnar. Byggingin er nú 1.783 fermetrar en yrði eftir stækkun 3.110 fermetrar.

Þannig sáu arkitektarnir fyrir sér að húsið liti út eftir …
Þannig sáu arkitektarnir fyrir sér að húsið liti út eftir stækkun. Mynd/Arkþing-Nordic
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert