Eitthvað stórt að malla

Tóti Guðnason, tónskáld og tónlistarmaður, samdi tónlist við kvikmyndina Dýrið …
Tóti Guðnason, tónskáld og tónlistarmaður, samdi tónlist við kvikmyndina Dýrið og er nú að vinna að spennandi verkefni sem er enn leyndarmál. mbl.is/Ásdís

Stúdíó Þórarins Guðnasonar, ávallt kallaður Tóti, er stútfullt af hljóðfærum og tölvum, skjáum og tökkum sem blaðamaður myndi ekki þora að snerta. Það er dregið fyrir glugga, enda gott að loka sig af í dimmunni þegar semja á mystíska kvikmyndatónlist. Tóti hefur haft nóg að gera í tónlistinni en hann vinnur nú nær eingöngu við tónsmíðar en gefur sér einnig tíma fyrir hljómsveit sína Agent Fresco.

Mögnuð hún systir mín

Tóti er umvafinn tónlistarfólki. Faðir hans er Guðni Franzson klarínettuleikari, kennari og stjórnandi.

„Mamma er ekki í músík en heldur því fram að hún komi frá henni,“ segir hann og brosir, en móðir hans er Jóna Fanney Friðriksdóttir.

Hálfsystir Tóta samfeðra er í dag einn þekktasti Íslendingur samtímans, Hildur Guðnadóttir, tónskáld og Óskarsverðlaunahafi.

„Hildur er sjö árum eldri en ég þannig að hún er nánast kynslóð fyrir ofan mig. Ég var oft þekktur fyrir að vera bróðir Hildar, því hún var lengi mikið í íslenskri tónlistarsenu og er þekkt fyrir það.“

Leistu upp til hennar?

„Já, ég hef alltaf gert það. Við erum mjög góðir vinir og höfum kynnst nú á annan hátt í gegnum alla okkar vinnu saman,“ segir Tóti og segist hafa fyrst unnið með Hildi í kvikmyndinni Sicario 2.

Hvernig var að vinna undir hennar stjórn?

„Bara frábært. Hún er mögnuð hún systir mín og hefur sannað það vægast sagt,“ segir Tóti sem vann einnig sem hennar aðstoðarmaður við gerð tónlistarinnar í kvikmyndinni Jóker, en eins og alþjóð man sópaði Hildur til sín öllum helstu tónlistarverðlaunum heims fyrir þá listsköpun.

„Allt ferlið tók eitt, eða eitt og hálft ár. Að vera í þessu aðstoðarmannahlutverki felur í raun í sér að verða framlenging á hugmyndum tónskáldsins og hjálpa til við að gera sýn þess að veruleika.“

Kom þitt nafn fyrir í kredit-listanum á Jóker?

„Ef þú bíður í tuttugu mínútur þá kem ég á eftir kaffimeisturum aðstoðarleikstjóra,“ segir Tóti sposkur á svip.

Að keppa við þögnina

Dýrið, kvikmynd Valdimars Jóhannssonar, er fyrsta kvikmynd sem Tóti fékk að spreyta sig á sem tónskáld.

„Þetta var algjört draumaverkefni til að byrja á. Við Valdi náðum vel saman og áttum yndislegt samstarf. Hann er mjög opinn fyrir skrítinni tónlist sem ég tek mjög fagnandi. Ég fékk fyrst handritið og var mjög hrifinn,“ segir Tóti sem fékk síðan senur sendar sem hann fór að vinna með.

Tóti samdi tónlist við myndina Dýrið en hún er að …
Tóti samdi tónlist við myndina Dýrið en hún er að gera það gott víða um heim.

„Myndefnið er svo sterkt í myndinni og talar sínu máli og ég held að það sé mjög mikilvægt að tónlistin bæti við en reyni ekki að taka yfir. Valdi hafði á einhverjum tímapunkti hugsað sér að hafa hana alveg þögla. Þannig að ég var að sumu leyti að keppa við þögnina.“

Nú hefur myndin verið að gera það gott víða um heim, ertu hissa á því?

„Dýrið er að fara töluvert víðar en ég gerði ráð fyrir þegar ég hóf að vinna að henni. Þetta er furðuleg mynd með nýrri nálgun í íslenskri kvikmyndagerð. En hún er gullfalleg og ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í svona vel heppnuðu verkefni sem mínu fyrsta,“ segir Tóti og segist viss um að myndin opni honum fleiri dyr í framtíðinni.

Í rokkstússi í mörg ár

Tóti gefur sér enn tíma til að spila með Agent Fresco.

 „Við erum svo gott sem búin með plötu sem hefur verið lengi í vinnslu, og kemur út á næsta ári. Við höfum ekki spilað mikið undanfarin ár, það var auðvitað Covid og margir af strákunum að stofna fjölskyldur, en hjarta mitt er enn 100% í Fresco. Ég er mjög stoltur af hljómsveitinni; hún er ekki að elta neina strauma. Við erum bara að skapa okkar tónlist úr okkar hugarheimi og vonandi nennir fólk að hlusta.“

Útrás í hinu drungalega

Er eitthvað á döfinni?

„Já, það er eitthvað að malla, frekar stórt,“ segir Tóti dularfullur á svip og segist ekki mega gefa meira upp í bili.

„Þó ég sé að byrja á mínum ferli sem kvikmyndatónskáld finnst mér gaman að vinna með öðru fólki og vona að ég haldi því áfram. Ég var til dæmis að vinna að tónlistinni í Kötlu með Högna og er núna að vinna með Ólafi Arnalds í sjónvarpsseríu sem hann er að gera.“
Nú er Katla, Jóker og Dýrið alvarlegt og jafnvel drungalegt efni. Hefurðu samið fyrir gamanefni?

„Ég hef ekki gert það og veit ekki hvernig það myndi þróast. Það hefur ekki dottið inn á borð hjá mér enn,“ segir hann og hlær.

„Við Hildur erum býsna lík að því leyti að eins lífsglöð og við erum og alls ekki dimm og drungaleg, þá fáum við útrás fyrir það í tónlistinni. Kvikmyndatónlist er gott tæki fyrir slíka útrás.“

Ítarlegt viðtal er við Tóta Guðnason í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert