Óskaði ekki eftir hryllingssögum

Drífa Snædal, forseti ASÍ, kveðst ekki hafa óskað eftir hryllingssögum …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, kveðst ekki hafa óskað eftir hryllingssögum frá starfsfólki Play í tölvupósti sem sendur var á starfsfólk flugfélagsins. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, kveðst ekki hafa óskað eftir hryllingssögum í tölvupósti sem sendur var á starfsfólk Play og segir hún forstjóra flugfélagsins fara með alvarlegar ávirðingar.

Birgir Jónsson forstjóri Play kom fram í Silfrinu í morgun þar sem hann gagnrýndi framkomu ASÍ í garð flugfélagsins. Sagði hann þá Drífu hafa sent tölvupóst á starfsmenn fyrirtækisins og beðið þá um hryllingssögur af ógnarstjórnun og slæmum ábúnaði í fyrirtækinu.

Vildu vekja athygli á réttindum starfsfólks

Drífa birti í dag tölvupóstinn í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook. Segir hún markmið hans ekki hafa verið að falast eftir hryllingssögum heldur að vekja athygli á réttindum starfsfólks.

„Við vorum að vekja athygli á því að launafólk hjá Play sem að hefur áður starfað hjá Wow air getur endurvakið réttindi sín með því að flytjast yfir í flugfreyjufélagið. Þannig að við vorum bæði að vísa á það að við værum til þjónustu reiðubúin og hvernig þau gætu gætt hagsmuna sinna sem best,“ segir Drífa í samtali við mbl.is.

Kjör starfsmanna Play varða atvinnumarkaðinn í heild

Hún telur að ASÍ hafi ekki stigið út fyrir starfssvið sitt með sendingu tölvupóstsins enda varði kjör starfsmanna Play hagsmuni íslensks vinnumarkaðar í heild sinni. „Launafólk á Íslandi hefur hagsmuni af því að hérna sé almennilegur vinnumarkaður og að það sé ekki verið að semja við stéttafélög sem eru ekki burðug til að hugsa um sína umbjóðendur.“

ASÍ hefur áður gagnrýnt kjarasamninga Play og hefur meðal annars hvatt Íslendinga til að sniðganga flugfélagið vegna samninga félagsins við stéttarfélagið ÍFF. Í Silfrinu í morgun sagði Birgir að stéttafélagið væri „fullkomlega löglegt og flott“ og við það væri ekkert að athuga. 

Innt eftir viðbrögðum við þessari staðhæfingu kveðst Drífa alls ekki sammála.

„Það liggur algjörlega fyrir að það voru gerðir þarna kjarasamningar við þetta félag án þess að nokkur einasta flugfreyja sat í stjórn þess eða átti aðild að þessu félagi. Þetta voru ekki samningar sem voru gerðir af flugfreyjum eða samþykktir af flugfreyjum augljóslega.“

„Hvað næst?“

Drífa segir flugfélagið byggja viðskiptalíkan sitt á lágum launakostnaði og að þeir kjarasamningar sem ASÍ hefur séð bendi til þess að grunnlaunin séu undir lágmarkslaunum á íslenskum vinnumarkaði. 

„Ef að Play gerir þetta og það þykir eðlilegt, og Samtök atvinnulífsins ætla að verja það, þá spyr maður hvað næst? Ætlar næsta stórfyrirtæki sem kemur hingað að lækka launin enn frekar á íslenskum vinnumarkaði? Auðvitað eru þetta hagsmunir alls vinnumarkaðar, ekki bara flugliða hjá Play.“

Drífa segir Íslendinga hafa hagsmuni af eðlilegri samkeppni á flugmarkaðnum en að hún verði að vera eðlileg og megi ekki byggja á undirboðum á launum fólks á íslenskum vinnumarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert