Vopnað rán í Grafarvogi

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var rán á veitingastað í Grafarvogi í gærkvöld. Maður ruddist inn og opnaði afgreiðslukassann og hóf að hrifsa þaðan peninga.

Starfsmaður kom að manninum á verknaðarstundu og segir hann að þjófurinn hafi ógnað sér með eggvopni. Manninum tókst að hlaupa á brott með reiðufé úr kassanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.

Þar segir einnig að eldur hafi komið upp í bifreið í Vesturbæ um kvöldmatarleytið í gær. Slökkviliðið kom á vettvang og slökkti eldinn, sem sagður er hafa kviknað í vélarrými bílsins.

Ekki er vitað um tjón á næstu bifreiðum en þær voru færðar burt meðan á slökkvistarfi stóð. Bifreiðin hefur nú verið fjarlægð af vettvangi.

Þá voru alls tilkynnt þrjú umferðaróhöpp. Eitt þeirra varð í miðbænum snemma í gærkvöldi þar sem ekið var á unga konu. Hún fékk áverka á höndina.

Ekið á níu ára dreng á reiðhjóli síðdegis í gær í Garðabæ. Sjúkrabíll kom á vettvang en drengurinn, sem kvaðst aumur í hnjám, fór af vettvangi með móður sinni.

Svo ók ung kona út af veginum í Mosfellsbæ í gærkvöld. Hún kvaðst finna til eymsla í öxl og var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til aðhlynningar.

Tveir ökumenn voru alls stöðvaðir í gær, einn í Árbæ, en grunur lék á um að sá væri undir áhrifum, og annar í Vesturbæ, en sá hafði ekki ökuréttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert