Ný ráðuneyti á teikniborðinu

Willum Þór Þórsson þykir líklegur sem nýr ráðherra.
Willum Þór Þórsson þykir líklegur sem nýr ráðherra.

Ný ráðuneyti og flutningur verkefna er á dagskrá nýrrar ríkissstjórnar sem gert er ráð fyrir að megi kynna í næstu viku gangi allt eftir. Þar mun mest velta á lyktum mála vegna kosninga í Norðvesturkjördæmi.

Málefnasamningur endurnýjaðs ríkisstjórnarsamstarfs er svo gott sem tilbúinn, þó enn sé verið að hnika til málsgreinum hér og þar. Heimildarmenn Morgunblaðsins, sem standa nærri ríkisstjórninni, segja að þar muni mestu skipta hver verði niðurstaðan um verkefnatilflutning og skipan ráðuneyta, sem enn sé til umræðu.

Þar felast mögulega mestu tíðindin í því að til stendur að endurskoða lögin í kringum rammaáætlun, sem vafalaust mun taka langan tíma. Þá yrði rammaáætlun 3 afgreidd með ýmsum breytingum sem fælust aðallega í að virkjanakostir yrðu færðir úr bæði nýtingar- og verndarflokki yfir í biðflokk. Þá yrði unnt að undirbúa einhverja óumdeilda kosti í nýtingarflokki.

Ný ráðuneyti

Líkt og áður hefur verið greint frá stendur til að mynda nýtt innviðaráðuneyti, sem gert er ráð fyrir að Sigurður Ingi Jóhannsson fari fyrir. Í því verða verkefni samgönguráðuneytis; húsnæðis- og mannvirkjamál úr félagsráðuneyti, en einnig skipulagsmál úr umhverfisráðuneyti.

Sjálfstæðismaðurinn Guðrún Hafsteinsdóttir.
Sjálfstæðismaðurinn Guðrún Hafsteinsdóttir.

Þá hefur einnig verið rætt um að mynda nýtt þekkingarráðuneyti, þar sem málefni vísinda, menningar og nýsköpunar verði undir einu þaki. Eins að endurreist viðskiptaráðuneyti hafi allan fjármálageirann, samkeppnis- og neytendamál og félagaréttinn allan á sínum snærum. Um þessi tvö síðastnefndu hefur þó ekki verið bundið samkomulag, svo það kann að breytast.

Nýir ráðherrar og stólaskipti

Ekki er búið að lenda verkaskiptingu flokkanna í ráðuneytum og enn síður komið að því að ráðherralistinn liggi fyrir. Þó er ljóst að tveir nýir ráðherrar koma í ríkisstjórn og þar þykja sjálfstæðismaðurinn Guðrún Hafsteinsdóttir og framsóknarmaðurinn Willum Þór Þórsson líklegust.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert