Bað um eina milljón af 49 milljörðum

Björn Steinbekk.
Björn Steinbekk.

Ljósmyndarinn Björn Steinbekk gagnrýnir hið opinbera fyrir að hafa ekki stutt við hann fjárhagslega vegna vinnslu mynda og myndskeiða frá eldgosinu í Geldingadölum. Björn bendir meðal annars á að 2,7 milljónir hafi horft á eitt myndbanda hans eftir að leikarinn Will Smith deildi því á Instagram-reikningi sínum.

Auk þess hafi efni frá honum verið undirstaðan í 60 mínútum, í fréttum á BBC, ABC, CBS, WSJ, NYT, CNN og hlotið gríðarlega dreifingu á samfélagmiðlum.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag kemur fram að nærri 680 þúsund manns hafi deilt efni frá gos­inu á sam­fé­lags­miðlum frá því eld­gosið hófst 19. mars síðastliðinn. Upp­safnaður fjöldi lestra/​áhorfa í öll­um teg­und­um miðla er yfir 175 millj­arðar og aug­lýs­inga­verðmæti er áætlað vera rúm­lega 49 millj­arðar króna. Þetta kem­ur fram í töl­um frá Cisi­on-um­fjöll­un­ar­vakt­inni sem fylg­ist með um­fjöll­un um Ísland fyr­ir Íslands­stofu.

Fékk ekki styrk

„Það sem ég átti ekki von á var að hið opinbera myndi hafna því að styðja mig,“ skrifar Björn Steinbekk meðal annars á Facebook og bendir á að bara kostnaður við dróna sé kominn upp í eina milljón króna.

„Fyrir nokkrum vikum síðan fékk ég höfnun um styrk frá ráðuneyti ferðamála. Ég bað um eina milljón af þessum 49 milljörðum,“ skrifar Björn.

Í stuttu samtali við mbl sagði Björn að þessi færsla væri öðrum þræði hugsuð til að vekja athygli á því hversu mikla landkynningu einherjar eins og hann, Ása Steinars., Garðar Ólafss., Arnar Kristjánss. og Hörður og mörg fleiri skila með sköpun sinni á samfélagsmiðlum.

Það væri verkefni fyrir yfirvöld að skoða stuðning við þetta fólk eins og gert er með kvikmyndageira, bókmenntir og tónlist. Til dæmis að taka upp endurgreiðslu kerfi líkt og tíðkast öðrum skapandi greinum sem skila tekjum og kynningu á Íslandi. Þetta sé nýr raunveruleiki og eins og alltaf, þá vilji fólk erlendis heyra um Ísland, frá Íslendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert